146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:10]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Þetta hefur verið skoðað mjög lauslega. Það er mikilvægt að kanna með hvaða hætti við getum stutt betur við þennan hóp. Það er alveg augljóst að málefnaleg rök fyrir standa þeirri leið sem hv. þingmaður nefnir, þ.e. það má fyllilega búast við því að sé fæðingarþjónusta ekki fyrir hendi í heimabyggð þurfi móðir, í þessu tilfelli, fyrr frá að hverfa af vinnumarkaði. Það er fullkomlega eðlilegt að horfa til þeirrar staðreyndar við ákvörðun fæðingarorlofs. Þarna þyrfti þá að vera fyrir hendi einhvers konar heimild til lengds fæðingarorlofs til þess að mæta sérstökum aðstæðum. Það er til skoðunar, en það skal viðurkennast að það er ekki langt komið í ljósi forgangsröðunar vegna fjármálaáætlunar, en það er engu að síður til skoðunar.