146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

svör við fyrirspurnum.

[10:38]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er gott að heyra að þingfundaskrifstofa Alþingis sinnir sínum störfum og ýti á eftir fyrirspurnum okkar þingmanna. Ekki veitir af. Ég ætla að taka í sama streng og hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé sem talaði um fyrirspurnir sem er enn ósvarað. Ég er ein af þeim sem hafa ekki fengið svör við minni fyrirspurn sem er tveggja mánaða gömul, frá 20. mars sl. Þeirri fyrirspurn var beint til hæstv. dómsmálaráðherra og fjallar um fylgdarlaus börn sem sækja um alþjóðlega vernd. Eins og hv. þingmaður benti á áðan hafa ráðherrar 15 daga til að svara fyrirspurnum okkar þingmanna. Þann 19. maí sl. komu skilaboð til mín um að ráðuneytið hefði ekki getað sinnt því að svara þessari fyrirspurn. Ég velti fyrir mér á hverju þetta strandi. Ég spurði m.a. hve mörg fylgdarlaus börn (Forseti hringir.) samkvæmt lögum um útlendinga hefðu sótt um alþjóðlega vernd hér á landi á síðustu fimm árum og um aldur þeirra og kyn. Hafa fylgdarlaus börn verið send til annars viðkomulands á síðustu fimm árum á grundvelli reglugerðar (Forseti hringir.) Evrópuþingsins og hvernig ganga íslensk stjórnvöld úr skugga um að þau börn, sem komið er í veg fyrir að sæki um alþjóðlega vernd á Íslandi og send annað, fái aðbúnað og málsmeðferð sem samræmist alþjóðlegum skuldbindingum um réttindi barnsins?

Ástæðan fyrir því að svona fyrirspurn er ekki svarað hlýtur að vera pólitísk og ekkert annað. Heilt ráðuneyti hlýtur að geta svarað svona fyrirspurn á heilum tveimur mánuðum.

(Forseti (UBK): Forseti vekur athygli hv. þingmanna á því að klukkan í ræðupúlti þingmanna telur ekki rétt en forseti fylgist grannt með tímanum af stóli sínum.)