146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

loftslagsmál.

356. mál
[12:30]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Mig langar að nota tækifærið og minnast á flugrekstur í nokkrar sekúndur eða mínútur. Það er þannig að verið er að úthluta endurgjaldslaust losunarheimildum til flugrekenda. Það kom fram áðan í ræðu hv. þm. Njáls Trausta Friðbertssonar að flugrekstur er orðinn mjög stór á Íslandi og fer sennilega stækkandi á næstu árum. Það er þá umhugsunarvert hvert þessi flugrekstur kann að stefna ef það breytist á endanum að losunarheimildir verða ekki endurgjaldslausar og erfitt verður að finna nýtt eldsneyti á flugvélar. Þegar við horfum á vaxandi flugrekstur sem hugsanlega enn eina stoðina undir efnahagsvöxt á Íslandi er rétt að muna eftir þessu. Það er ekki víst að þetta verði dans á rósum og flugverð jafn lágt og það reynist núna þegar fram í sækir. Sú greining sem þyrfti að fara fram á áhrifum flugrekstrar á efnahagslíf á Íslandi þyrfti að taka mið af þeirri staðreynd og hugsanlegri þróun sem ég hef nefnt.