146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

376. mál
[15:43]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. framsögumanni, Teiti Birni Einarssyni, fyrir þátt hans og nefndinni fyrir þátt hennar í þessari, ég vil segja miklu vinnu sem laut að frumvarpinu. Það er að mörgu leyti ánægjulegt og þetta sameiginlega nefndarálit sem er komið fram, en ég tek undir þau orð þingmanns á undan, hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppé, að það var ekki nógu vel vandað til frumvarpsins og samráð of lítið.

Ég ætla að hnykkja á örfáum atriðum vegna þess að það er augljóst að fyrir utan þessar EES-reglur sem verið er að taka í gildi er verið að liðka fyrir ýmsu. Það er verið að halda í þá verkaskiptingu milli Umhverfisstofnunar og heilbrigðisnefnda sem verið hefur. Það er verið að létta á starfsleyfisskyldum og auka skráningarskyldur sem eru til bóta, létta á skrifræðinu að nokkru leyti. Þegar kemur að ótímabundnum starfsleyfum þá er afar mikilvægt að það skyldi ekki ganga í gegn vegna þess að núna eru starfsleyfi yfirleitt veitt til 12 eða 16 ára og það sýnir sig vera mikilvægt.

Ég vil bæta inn í rökin sem komu á undan því að það er þannig að starfsleyfisendurskoðun í heild í einhverju tilteknu fyrirtæki eða stofnun með skynsamlegu bili eykur öryggi og fagleg vinnubrögð, bætir gæði starfs þessa viðkomandi fyrirbæris, hvort sem það eru sjálf fyrirtækin eða stofnanir og jafnvel eftirlitsaðilarnir sjálfir. Þetta er öfugt við það sem gerist við ótímabundið starfsleyfi þar sem reglubundið árseftirlit hefur ekki sama þunga og heildarendurskoðun sem fer fram í bland við þetta reglubundna eftirlit. Það er einfaldlega verið að veita fyrirtækjum með vissu árabili tækifæri til vandlegrar yfirferðar og það hlýtur að vera til bóta. Það sjá sennilega allir.

Það er líka verið að liðka fyrir og auðvelda afar brýna skráningu heimagistingar með því að létta aðeins á ferlinu. Það er mikilvægt. En um leið er mikilvægt að hnykkja á því að heimagisting af hvaða tagi sem hún er þarf og á að vera skráningarskyld og þannig um hnútana búið að menn skili sköttum sínum og gjöldum. En það er grunur á því að ýmsu sé verulega ábótavant í þeim efnum.

Grænt bókhald, birting eftirlitsskýrslna, er líka til bóta. Þegar upp er staðið er þetta frumvarp og innleiðing þessara reglna á þokkalegu róli. Þetta er ágæt lending þótt frekari skoðunar sé þörf, eins og rakið var hér á undan. Þar með hvet ég eins og aðrir til samþykktar frumvarpsins.