146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

kosningar til sveitarstjórna.

258. mál
[19:02]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Frú forseti. Nú er mér málið kært, enda er ég 1. flutningsmaður þess. Ég veit að í nefndinni var rætt um þetta og ýmsar mögulegar útfærslur. Til dæmis er hægt að fara þá leið sem lagt var upp með í frumvarpinu, það er hægt að stíga skrefið skemmra og líta til þeirrar leiðar sem farin hefur verið í Noregi. Þar fá Norðurlandabúar kosningarrétt um leið en aðrir að þremur árum liðnum. Það voru sjónarmið sem komu fram í þeim umsögnum sem bárust um málið.

Hér er lagt til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnar og hún hugi að endurskoðun á kosningarréttinum. Það er niðurstaða sem ég sætti mig við. Ég vona að fram fari skoðun á þessu í ráðuneytinu sem endi með frumvarpi von bráðar. Dómsmálaráðuneytið mun þá finna minn hlýja andardrátt á hnakka sínum til að tryggja að svo verði. Að öðru leyti styð ég þessa niðurstöðu og hef lokið máli mínu.