146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[21:21]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru mjög áhugaverðar samræður sem hér eiga sér stað aðallega úr munni hv. þm. Theodóru Þorsteinsdóttur. Nú er þetta ekki í fyrsta sinn sem frumvarp af þessum toga kemur fram eða mjög líkt frumvarp í það minnsta. Í umsögnum hefur Seðlabankinn varað eindregið við afleiðingum þess að opna á veitingu gengistryggðra lána til neytenda sem ekki hafa gengisvarnir. Það er nákvæmlega það sem er verið að gera í frumvarpinu.

Hv. þm. Theodóra Þorsteinsdóttir hefur verið ötul baráttukona gegn gengistryggðum lánum. Sú barátta hefur heldur betur ekki farið fram fyrir luktum dyrum. Sú barátta var nýtt í aðdraganda kosninga og hv. þingmaður hefur nýtt sér þetta á opinberum vettvangi, til að mynda í heimildarmynd um sjálfa sig og stöðu sína.

Mig langar því að fá að heyra frá hv. þingmanni, um það frumvarp sem hér um ræðir, hvort hún telji þessar gengisvarnir nægar fyrir þá neytendur sem hugnast að taka gengistryggð lán; og hvað henni, þessari ötulu baráttukonu sem hún er, finnist um það að vera að opna á þessi lán til neytenda.