146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[21:24]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fékk ekki svar frá hv. þingmanni hvað henni finnst um þetta frumvarp þar sem opnað er á lánveitingar á gengistryggðum lánum til neytenda með ófullnægjandi vörnum. Ég fékk ekki svar við þeirri spurningu minni hér. Það væri gaman að heyra skoðun hv. þingmanns á því.

Þá ætla ég að reyna aftur. Hver er hennar sýn á gjaldmiðlamál Íslands og hvernig ætlar hún að beita sér fyrir því að uppfylla þau markmið sem sett eru fram í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar í gjaldmiðlamálum? Hvernig ætlar hún að beita sér fyrir því? Ætlar hún að beita sér fyrir því með því að vera ötul baráttukona fyrir máli eins og því sem hér um ræðir?

Varðandi þau orð hv. þingmanns að hún hafi ekki notað sér persónulega reynslu í aðdraganda kosninganna þá vísa ég í heimasíðu Bjartrar framtíðar þar sem persónuleg reynsla hennar er rakin orð frá orði.