146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

umgengni um nytjastofna sjávar o.fl.

272. mál
[23:04]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Framsögumaður nefndarálits meiri hlutans hlýtur þó alla vega að vita hvort eitthvert hlutfall sé í almannaeigu, sem hún mælir fyrir að skuli úthlutað. Ég veit að það er í atvinnustefnu Vinstri grænna í sjávarútvegsmálum að einn þriðji hluti sé settur á markað og boðinn upp á uppboðum. Mér þætti mjög einkennilegt ef nefndarmaður og framsögumaður málsins, sá sem mælir fyrir því, myndi samþykkja þessi lög án þess að vita hvort eitthvað af náttúruauðlindinni sé í almannaeigu en eigi að úthluta með þessum hætti. Því að þegar öllu er á botninn hvolft má spyrja: Hvernig var sjávarauðlindinni úthlutað á sínum tíma? Henni var úthlutað vegna reynslu á nýtingunni til þriggja ára. Það var það sem var gert þá. Þarna á að færa þetta upp í fimm ár. Hvaða fordæmi eru þar þegar upp er staðið? Ég set svolítinn varnagla við það. Þarna reyni ég að vera varkár. Og framsögumaður málsins hlýtur að vita hvort hún sé að leggja til að sjávarauðlindinni verði úthlutað á nýjan hátt með þessum lögum sem ekki hefur verið gert áður, hvort einhver hluti af því sem framsögumaðurinn leggur til sé í almannaeigu. Framsögumaður hlýtur að geta svara því.