146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

umgengni um nytjastofna sjávar o.fl.

272. mál
[23:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Við erum að tala um að úthluta nýtingarleyfum. Þetta eru leyfi. Til ákveðins tíma. Þetta frumvarp er með sólarlagsákvæði til ákveðins tíma. Það er ekkert sem bindur hendur þeirra stjórnvalda sem verða við völd þegar þessi lög renna sitt skeið, hvernig þau eiga að hafa nýtingu á sameiginlegri auðlind, sem er vissulega ákveðið hlutfall í Breiðafirði sem ekki fellur innan netalaga. Það á algerlega eftir að útfæra það. Við vitum að auðlindanefnd er að störfum sem á að starfa á vegum atvinnuvegaráðuneytisins. Eflaust koma auðlindagjöld vegna nýtingar sjávargróðurs til umræðu innan þeirrar nefndar.

Ég tel ekki að við séum að skapa neitt fordæmi í þessu máli. Stjórnvöld sem koma að þessu máli þegar lögin renna sitt skeið eru algerlega óbundin af því þó að þessi nýtingarleyfi hafi verið veitt til þessara fimm ára. Þarna er verið að árétta að það sé mjög mikilvægt að stunda öflugar rannsóknir á lífríki Breiðafjarðar, ekki eingöngu á þanginu og þaranum heldur einnig á samspili lífríkisins við aðrar sjávarlífverur í firðinum, sem er mjög nauðsynlegt. Þar er eldisstöð fyrir nytjafiska eins og þorsk, seiði, hrognkelsi, fuglar — þari er hluti af fæðukeðju þeirra. Fæðukeðjan þarna er mjög fjölbreytt svo það er ekki eingöngu hægt að horfa á vöxt á þangi og þara einum og sér, heldur þetta allt samspil. (Forseti hringir.) Og það tel ég að verið sé að tryggja í þessu frumvarpi, og rannsóknir og vöktun.