146. löggjafarþing — 76. fundur,  31. maí 2017.

stjórn fiskveiða.

612. mál
[13:44]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. sjávarútvegsráðherra setti í apríl sl. reglugerð, m.a. um úthlutun á makríl. Axel Helgason, formaður Landsambands smábátaeigenda, fjallaði um það í grein sem hann skrifaði 18. maí í Fréttablaðið. Þar segir hann, með leyfi forseta:

„Engin veiðiskylda er á neinum heimildum og á síðustu vertíð voru 37.000 tonn af makríl framseld frá þeim sem fengu upp í hendur þessi gæði. Í ár er ráðherra að úthluta rúmlega 30.000 tonnum af makríl til skipa sem ekki nýttu eitt kíló af sínum heimildum á síðustu vertíð, heldur leigðu þær allar frá sér á 26 kr. kílóið, samtals á rúmar 700 milljónir króna.“

Þótt þetta sé ekki nákvæmlega sama umfjöllunarefni og frumvarpið eru þetta sömu lög. Ég spyr hv. þingmann: Má ekki nota ferðina til að setja inn einhver skilyrði fyrir þá sem fá úthlutað makrílkvóta þannig að við séum ekki að úthluta gæðum nánast ókeypis? Menn snúa sér við og selja þau fyrir gott verð og stinga í eigin vasa. Væri ekki nær að nýta ferðina núna til að koma í veg fyrir þannig lagað og ríkið sjálft myndi bjóða út þann kvóta sem ekki væri nýttur? Eins og fram hefur komið í fjármálaáætluninni og umræðunni um heilbrigðiskerfið gætum við alveg notað 700 milljónir króna til ýmissa gagnlegra verka fyrir ríkissjóð.