146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[12:11]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er að spyrja út í rannsóknarskyldu, ekki neitt annað. Ekki rökstuðning ráðherra, ég er að spyrja út í rannsóknarskylduna. Það er fullyrðing í minnihlutaálitinu að ekki sé sýnt að ráðherra hafi sinnt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt stjórnsýslulögum. Ég er að biðja um útskýringu á því að hvaða leyti hefur ráðherrann ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni. Ekki getur það verið að hv. þingmaður sé að rengja að ráðherra hafi farið yfir gögn málsins, hafi farið yfir umsóknirnar, hafi farið yfir umsögn dómnefndar, hafi farið yfir andmæli umsækjenda, hafi kallað eftir vinnugögnum nefndarinnar? Ekki er hv. þingmaður að rengja það? Að hvaða leyti hefur ráðherrann ekki uppfyllt rannsóknarskyldu sína?

Þá vil ég líka benda hv. þingmanni á, af því að í áliti minni hlutans er vísað í dóm Hæstaréttar í máli 412/2010, að þar tekur Hæstiréttur sérstaklega fram að við breytingu á lögum um dómstóla frá 1998, með leyfi forseta, „… var þessari rannsóknarskyldu við skipun í embætti héraðsdómara í verulegum atriðum létt af dóms- og kirkjumálaráðherra, en hún lögð þess í stað á herðar dómnefndar, …“ Þannig að þegar fullyrt er hér að ráðherra hafi ekki uppfyllt rannsóknarskyldu sína, er þá verið að fullyrða að dómnefndin hafi ekki uppfyllt rannsóknarskyldu sína? Ég vil fá útskýringar á þessu, frú forseti.