146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[15:23]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alltaf að koma betur og betur í ljós að lífssýn mín og hæstv. ráðherra er ólík, það hvernig við viljum sjá samfélaginu best fyrir komið. Það er allt í himnalagi. Ég hélt hins vegar að ég og ráðherra deildum því þó að vera aðdáendur faglegra og vandaðra vinnubragða og byggði ég það ekki síst á kjörorðum flokks hæstv. ráðherra og svo kynnum mínum af honum. Þess vegna hjó ég vel eftir því þegar hæstv. ráðherra talaði um eitt stærsta skref í íslensku réttarkerfi um áratugaskeið og að mjög mikilvægt væri að vandað væri til verka.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra þar sem hann er mikill áhugamaður um að vanda til verka hvort honum finnist tveggja sólarhringa yfirlega Alþingis í öllum þeim önnum sem hér voru, fundi nefnda sem þurfti að halda þegar tími gæfist, lesa gögn, skrifa nefndarálit, þau vönduðu vinnubrögð sem hæstv. ráðherra er svona (Forseti hringir.) ánægður með. Það var ekki bara að hæstv. ráðherra segði að þetta gæti verið eitthvað mikið betra, það var ekki annað (Forseti hringir.) en hægt að skilja á ræðu hæstv. ráðherra en að þetta væru bara eins vönduð vinnubrögð og hægt væri að viðhafa. (Forseti hringir.) Það kom mér svo sannarlega á óvart í máli hæstv. ráðherra.