146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[17:58]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér koma til afgreiðslu 15 tillögur dómsmálaráðherra um einstaklinga til þess að skipa sæti dómara við nýjan Landsrétt. Meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar gerði tillögu um það í ályktun sinni að Alþingi staðfesti tillögur dómsmálaráðherra með þessari atkvæðagreiðslu. Það gerum við á þeim grundvelli að við teljum að á bak við tillögur dómsmálaráðherra liggi fullnægjandi vinnubrögð og málefnaleg sjónarmið þegar horft er til tillagnanna og þeirra áherslna sem dómsmálaráðherra leggur áherslu á við tillögugerð sína. Ég tel að þetta sé söguleg stund. Ég hefði kosið að það væri í meiri sátt og friði en hér er um að ræða, en engu að síður er söguleg stund þegar Landsréttur er skipaður (Forseti hringir.) með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir.