147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[11:04]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta voru áhugaverðar umræður hjá hæstv. ráðherra. Óhætt er að segja það. Nemendur eru ekki hús. Menntun er ekki til þess að styðja við hús heldur fyrir nemendur. Ég er alveg sammála því. (LE: … í heilbrigðismálum á Landspítalanum.) Enda kem ég nú úr því kerfi, var þar áður en ég kom á þing. Ég þekki það ágætlega. En mér fannst hæstv. ráðherra snúa sig heldur lélega frá spurningunni með þessu svari.

Frú forseti. „Mannfólk gerir mistök og græðgi mun verða til þess að fólk taki slæmar ákvarðanir. Það mun gerast aftur.“ Þetta sagði hæstv. forsætisráðherra Bjarni Benediktsson. Þetta er ráðherrann sem varð uppvís að því að eiga eignir í skattaskjóli, ráðherra sem hefur staðið fyrir því að mylja undan samneyslunni og opinbera kerfinu um 100 milljarða frá árinu 2013 og moka undir einkavæðingu. Við erum með fjármálaráðherra sem talar niður krónuna og vill helst ekki peninga, bara kort. Við eigum nefnilega að vera minnug þess að ríkið á að veita þjónustu og er ekki eins og hvert annað fyrirtæki. En því miður finnst mér bæði fjármálaráðherra og fleiri í þessum sal vilja hafa það þannig.

Síðustu daga hafa ráðherrar þessarar ríkisstjórnar keppst við að segja landsmönnum hvað þeir setji nú rosalega mikla peninga í kerfið. Þeir segjast vera að standa við stóru loforðin sem gefin voru fyrir kosningar. En er það raunin? Við fyrstu sýn og lestur fjárlagafrumvarpsins virðist það ekki vera svo, enda sagði í fjármálaáætluninni sem meiri hlutinn samþykkti í vor að aðhald yrði aukið 2018. Það ætti í sjálfu sér ekki að koma nokkrum manni á óvart að aðhald birtist í þessum fjárlögum, hvort heldur sem horft er til heilbrigðis-, mennta-, menningar-, samgöngu-, löggæslu- eða fjölskyldumála.

Það er nefnilega svo, og kom fram á fundi fjármálaráðherra með fjárlaganefnd, að stærsti hluti þeirra fjármuna sem bættust við þetta fjárlagafrumvarp er vegna kjarasamninga og verðlagsbreytinga. Allt of víða er sáralítið sett af nýjum peningum til að styrkja rekstur hins opinbera. Það á hins vegar ekki við þegar kemur að hinu einkarekna, til dæmis í heilbrigðisþjónustunni sem vex og vex þrátt fyrir aðvaranir landlæknis um að það veiki opinbera reksturinn.

En hvert var ákallið fyrir síðustu kosningar? Það var ákall um að nú þegar áraði betur í þjóðarbúskapnum væri kominn tími á að spýta verulega í og styrkja grunnrekstur hinnar opinberu þjónustu. Heilbrigðismálin, og ekki síst geðheilbrigðismálin, voru og eru í brennidepli. Hér á að setja 60 milljónir til að framfylgja aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum. Það á líka að styrkja heilsugæsluna um 200 milljónir en ég geri ráð fyrir að einungis brot af þeirri fjárhæð fari í sálfræði- og teymisvinnu. Því miður finnst mér það afskaplega þunnur þrettándi og er ekki ein um það því að það var viðtal í Morgunútvarpinu um þessi mál þar sem það er sagt vera allt of lítið á komandi árum.

Þess vegna verður heilbrigðisráðherra að sýna okkur svart á hvítu hvar og hvernig þessi milljarður er og verði að finna, sem hann segir að eigi að fara í málaflokkinn.

Sjúkrahúsin koma líka illa undan þessum fjárlögum. Þegar frá eru dregin laun og verðlagsáhrif eru sáralitlir peningar í reksturinn en dyggilega er stutt við einkareksturinn. Það ætti svo sem ekki að koma mörgum á óvart með þessa ríkisstjórn. Það er afskaplega ánægjulegt að byggja eigi við Landspítalann, loksins. Þó er það nú svo að fólk bíður ekki með að verða veikt þar til sú bygging rís. Þess vegna þarf að styrkja grunnrekstur þessara stofnana. Það er ekki gert í þessu fjárlagafrumvarpi. Ekki frekar en tekið er á þeim vanda sem blasir við gagnvart öldrunarheimilum. Spyrja má ráðherra eftir því hvort til standi að fara í þau mál að leiðrétta stöðu sveitarfélaganna sem borga ítrekað með rekstrinum sem á alla jafna að vera á hendi ríkisins. Það væri gott að fá svar við því.

Virðulegi forseti. Hvað með 300 þúsund kallinn til öryrkja eða eldri borgara sem þurfa að treysta á hið opinbera kerfi? Það er nefnilega bara hluti einstæðinga sem kemst þangað. Ekki geta þeir nú unnið mikið því að tekjuviðmiðið er hlægilega lágt og á að taka mörg ár í að hækka það. Hvenær er tími til að leiðrétta ef ekki nú þar sem samfelldur hagvöxtur var 7,2% í fyrra, meira en í nokkru öðru OECD-ríki?

Við hverju er að búast þegar forsætisráðherra landsins segir að það sé stórkostlegt afrek að hækka laun þessa hóps í 300 þúsund? Nei, virðulegi forseti. Ríkisstjórnin er að viðhalda fátækt með aðgerðum sínum í þessu frumvarpi gagnvart stórum hluta þessa hóps.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar bitna líka á ungu barnafólki sem fær sífellt lægri barna- og vaxtabætur þrátt fyrir að sjaldan hafi verið eins erfitt að koma sér þaki yfir höfuðið. Vaxtabætur eru lækkaðar um 30% vegna þess að fasteignaverð hefur hækkað. En þó að fasteignaverð hækki þýðir það ekki að þessar sömu ungu fjölskyldur hafi meira ráðstöfunarfé á milli handanna. Eina jákvæða ljósið í þessu gagnvart ungu fjölskyldufólki er stighækkandi fæðingarorlof. En þá verður líka að muna eftir því að það þarf að brúa bilið á milli leikskóla og fæðingarorlofs. Það hefur ekki verið gert.

Við verðum líka að ræða hin brýnu húsnæðismál. Félags- og jafnréttismálaráðherra stærir sig mikið af því að settir séu viðbótarfjármunir í þann lið. En ekki hvað? Ætlaði ríkisstjórnin ekki að standa við sinn hluta sem um var samið í síðustu kjaraviðræðum? Skárra væri það nú. Það breytir því ekki að það dugar engan veginn til að standa undir þeim áætlaða fjölda sem ætlunin var að byggja. Því mun enn blasa við húsnæðisskortur.

Ég get ekki látið hjá líða að ræða skattana sem hér eru lagðir til. Allra síst ætla ég nú að tala á móti grænum sköttum en mikil hækkun á olíu og bensíni sem hér er lögð til kemur sérstaklega illa við hinar dreifðu byggðir þar sem fólk þarf að fara um langan veg og aðrir fararkostir ekki endilega heppilegir. Við erum með handónýta vegi um land allt. Allt of litlum fjármunum er varið til samgangna. Hugmyndir ráðherra þess málaflokks eru að taka vegtolla sem koma þá til með að bætast við þessar hækkanir.

Við sem búum í dreifbýlinu þurfum að sækja ýmsa þjónustu um langan veg. Því er óhætt að segja að þetta sé íþyngjandi landsbyggðarskattur. Ég verð að spyrja ráðherrann hvort hann hafi hugsað sér einhvers konar mótvægisaðgerðir og þá hverjar. Því að þetta er ekki bara íþyngjandi fyrir hinn almenna íbúa heldur líka fyrir fyrirtæki, fyrir bændur sem reka flest sín tæki á olíu. Hvað með ferðaþjónustuna sem nú þegar hefur dregist saman á landsbyggðinni? Þetta hlýtur líka að hafa áhrif á dreifingu ferðamanna. Þarf ekki að kanna þessi áhrif?

Ég vil líka spyrja ráðherrann hvort hann hafi látið reikna út áhrifin á skuldastöðu heimilanna. Hækkun á bensíni, olíu og áfengisgjaldi hefur, eins og við vitum, bein áhrif á hana. Við viljum líka tengja þetta launum. Samkvæmt FÍB þarf fólk að afla á bilinu 45–70 þúsund krónum meira á ári. Við erum líka að tala um fólkið sem er beðið um að vera þakklátt fyrir 20 þúsund krónur, því að hlutfallslega væri það ekki lítið. Er þetta ekki dæmi um að við setjum í annan vasann og tökum svo úr hinum?

Loftslagsmál skipta okkur öll máli. Það þarf að gera orkuskiptaáætlun til framtíðar. Það þarf að leggja fram aðgerðaáætlun. Það er ekki hægt að henda út í kosmosið aðgerð hér og aðgerð þar sem ekki ná tilgangi sínum. Ekki eiga fjármunirnir að fara í loftslagsaðgerðir nema bara eins og hér var nefnt. Það eina sem lagt er til er að undanþágan varðandi rafmagnsbíla verði til þriggja ára. Við kaupum auðvitað ekki öll rafmagnsbíl á einu bretti. Við þurfum að finna einhverjar mótvægisaðgerðir. Ég myndi vilja heyra hjá ráðherra hverjar þær eigi að vera.

Kannski er það svo að innanbúðarmenn ríkisstjórnarinnar sjái til þess að þetta verði ekki gert. Alla vega hefur formaður efnahags- og viðskiptanefndar lýst því yfir að hann telji breytinga þörf á þessu tiltekna máli.

Forsætisráðherra gerði lítið úr þróun skattbyrðarinnar í stefnuræðu sinni í gær. Það er óumdeilt að um leið og skattbyrði lágtekju- og millihópa hækkaði fyrir hrun stórlækkaði skattbyrði hæstu tekjuhópa. Þar hafa mikil áhrif auknar fjármagnstekjur sem báru mun lægri skatta en atvinnutekjur launafólks. En ráðherrann vill bara tala um auknar ráðstöfunartekjur. Það breytir ekki þessari staðreynd. Þótt kaupið hafi hækkað eitthvað hefur skattbyrði þeirra lægst launuðu líka hækkað. Þetta fjárlagafrumvarp boðar minnkandi stuðning velferðarkerfisins sem étur þá upp þann litla ávinning af kjarasamningum.

Hann virðist líka vera búinn að gleyma rannsókninni sem rætt var um fyrir réttu ári, um að í fyrsta skipti frá iðnvæðingu hafi ungt fólk það verra en forverar þeirra. Það er því miður svo að hægri pólitíkin sér ævinlega um sína. Fólkið sem hefur það betra í þjóðfélaginu nýtur frekar góðs af þeirri stefnu. En það ætti ekki að koma nokkrum manni á óvart.

Ég vil líka minnast aðeins á skólakerfið sem fer ekki vel út úr þessum fjárlögum.

Virðulegi forseti. Ég verð líklegast að fá að koma aftur því að ég á töluvert eftir af ræðu minni, en ég þarf að láta staðar numið að sinni.