147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[12:49]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég bið hæstv. þingmann afsökunar á að hafa ekki nefnt hann fullu nafni. Það sem ætti í rauninni að gera núna til þess að styðja velferðarkerfið er að fara aftur í átt að því skattkerfi sem var í tíð þarsíðustu ríkisstjórnar með meiri þrepaskiptingu þar sem ríkasti partur þjóðarinnar borgaði hlutfallslega meira. Þá þarf auðvitað að gæta að því að slík skattlegging leggist ekki á meðaltekjur, á fólk sem á bara fullt í fangi með að lifa af launum sínum. En það er í rauninni hægt að leggja t.d. á auðlegðarskatt. Það er mjög réttmætur skattur og skynsamlegur. Ég held hann hafi skilað um 10 milljörðum. Við lækkum nú vaxtabætur um 2 milljarða, ég held það séu 30%, vegna þess að verðgildi íbúðanna sem maður býr í eykst, en það segir ekki allt um kostnaðinn. Það leggst illa á fólk. Barnabætur eru farnar að skerðast við 250 þús. kr., en lægstu laun í landinu eru 280–300 þús. kr. á mánuði. Það á náttúrlega að styrkja þetta kerfi sem er hið raunverulega jöfnunarkerfi.

Það sem mér finnst sorglegast, vegna þess að mér finnst oft svo margt spennandi sem hv. ráðherrar Viðreisnar tala um, er að þeir hefðu miklu frekar getað komið málum sínum í gegn og farið þá að sofa með góða samvisku ef þeir meina það sem þeir segja, ef þeir hefðu myndað fimm flokka ríkisstjórn um jólin.