147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[16:13]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Hagfræði Sjálfstæðismanna í þessu er alltaf jafn skýr. Það verður ekki frá þeim tekið, það er alveg ljóst. Ég geri þá bara ráð fyrir að hv. þingmaður styðji ekki framkomið frumvarp eins og það liggur fyrir.

Hann nefndi að ég ásamt félögum mínum í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði hefði lagt fram tillögur. Bæði hv. þingmanni og formanni fjárlaganefndar hefur orðið tíðrætt um að færa þetta yfir á hvern einstakling og fjölskyldur: Ójöfnuður í eignum, við þekkjum það. Ríkasta eina prósentið sem átti fimmtu hverja krónu í eigið fé í árslok 2015. Þetta 0,1% átti 187 milljarða í eigið fé og það óx á 18 árum um 1.042 milljarða. Það átti sem sagt tæplega helming eigin fjár í landinu á þessum tíma. Ég verð því að spyrja hvort það sé óeðlilegt að hægt sé að sækja þarna einhverja peninga því að við leggjum þá ekki á alla landsmenn. Við sækjum fé þar sem peningarnir eru til. (Forseti hringir.)

Svo verð ég líka að spyrja: Hvar er sóunin að mati þingmannsins í kerfinu?