147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[16:18]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki hvort ég get verið skýrari en ég var í ræðu minni. Ég ætla hins vegar að fá að vitna í hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem hefur lagt þetta fjárlagafrumvarp og tengd tekjufrumvörp fram fyrir þingið. Hann telur eðlilegt og sanngjarnt að á því verði breytingar. Þannig ætla ég að vinna.

Ég segi: Það eina sem ég tel mikilvægt er að við erum ekki að fara að hækka hér álögur. Það kann vel að vera að við þurfum að færa og gera einhverjar breytingar innan kerfisins, breyta einhverju o.s.frv. En heildarálögur verða ekki auknar með mínu samþykki. Það var alveg skýrt og er alveg skýrt og á ekki að koma neinum á óvart.

Varðandi skuldir og niðurgreiðslu skulda og afgang á ríkissjóði er það auðvitað þannig, og ég hef sagt: Við þurfum að greiða niður skuldir, þurfum að lækka vaxtagjöld ríkissjóðs. Það er auðvitað fjárfesting til framtíðar að gera það. Það er fjárfesting annars vegar í möguleika þess að lækka enn frekar skatta og hins vegar að auka framlög til sameiginlegra verkefna á sviði heilbrigðismála, menntamála, almannatrygginga o.s.frv. Þannig að það er skynsamlegt. Það er hins vegar rétt hjá hv. þingmanni að ég er ekki að fara að taka þátt í að hækka álögur til þess að halda afgangi ríkissjóðs meira að segja meiri en við gerðum ráð fyrir í fjármálastefnu.