147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

dagskrártillaga.

[13:50]
Horfa

Smári McCarthy (P) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér ræðum við um frekar hóflega breytingartillögu á dagskrá. Við erum ekki að heimta að farið verði endilega alla leið enda er það hvers og eins að ákveða það fyrir sig. En þetta er hófleg breytingartillaga um mál sem á að sjálfsögðu að hljóta meðferð þingsins. Þá getum við komið á einhverjum þröskuldum eins og sumir hafa talað fyrir. Og trúverðugleiki þingsins er satt að segja að veði. Ef við getum ekki tekið þetta einstaka mál til almennrar umræðu í stuttan tíma nú í lok þingsins, hvar stöndum við þá?

Ég segi jafnvel að framtíðin sé að veði því að ef Sjálfstæðisflokkurinn með sinn þriðjung atkvæða getur ráðið öllu um hvað verður tekið fyrir og hvernig erum við bara hreinlega komin í þá stöðu að framtíðinni verður frestað um fjögur ár í viðbót, aftur. Það er bara komið nóg af þessu. Við verðum að nota tækifærið til að taka framtíðinni fagnandi, gera það sem rétt er í stöðunni og koma helst þessari breytingu (Forseti hringir.) í gegn. Því að satt að segja verður sú atkvæðagreiðsla sem við erum að fara í núna túlkuð, hún verður túlkuð á einhvern hátt. Það er hvers og eins að meta hvernig hún kemur út.