147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

dagskrártillaga.

[13:55]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég verð að segja að fyrst þegar ég heyrði af dagskrártillögu Pírata var ég frekar jákvæður í garð þeirrar hugmyndar. Það er sjálfsagt mál að ræða stjórnarskrána eins og annað. Þá hafði ég helst hugsað mér að ræða tillögu í þá veru sem sex þingflokkar gætu sætt sig við.

Vandinn er sá að sú tillaga sem hér liggur fyrir er of langt frá því sem talist getur gott að mínu mati. Þar vantar helst þrjá hluti, sem ég ætla að nefna:

Í fyrsta lagi vantar þátttökuþröskuld, sem er að mínu mati alls ekki óleysanlegt atriði. Í öðru lagi vantar aukinn meiri hluta í þinginu. (Gripið fram í.) Í þriðja lagi, sem er ekki síður mikilvægt, er gefinn of skammur tími í tillögunni frá því að tillagan er lögð fram og þangað til atkvæðagreiðsla fer fram. Ég hefði viljað sjá þann tíma lengdan mikið, a.m.k. í eitt ár.

Í þeirri tillögu sem liggur fyrir felst allt of mikil hætta á því að ríkjandi meiri hluti hverju sinni noti þessa grein til að spila út einhverjum dægurflugum og gera þær að stjórnarskrárbreytingarmáli. Ég tel að hugurinn að baki tillögunni sé góður en ég held að hætturnar sem felast í henni (Forseti hringir.) séu of miklar. Ég mun ekki greiða atkvæði með þessari dagskrártillögu.