147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

almenn hegningarlög.

111. mál
[14:50]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum, þ.e. þá breytingu að fella út hugtakið „uppreist æru“ úr 84. og 85. gr. laganna í samræmi við þá umræðu sem átt hefur sér stað í samfélaginu allt frá því í vor.

Forseti. Það sem við horfumst í augu við hér er að mörgu leyti viðbragð, pólitískt viðbragð við þeim veruleika sem við verðum öll að horfast í augu við og eigum að horfast í augu við og megum ekki líta undan.

Árið 2015 héldum við á Íslandi upp á 100 ára kosningarétt kvenna. Á þeim tíma og frá því á þeim tíma hefur hver femíníska bylgjan af annarri og kraftur haft áhrif um allt samfélagið. Við getum nefnt druslugönguna. Við getum nefnt brjóstabyltinguna. Við getum nefnt Fokk ofbeldi. Við getum nefnt alls kyns grasrótarhreyfingar sem hafa risið upp og krafist þess að þolendur kynferðisbrota eigi að hafa hátt, megi hafa hátt og eigi að krefjast þess að samfélagið hætti að þagga þessi vandamál niður, að samfélagið taki mark á þessum röddum og samfélagið bregðist við með því að endurskoða alla lagaframkvæmd, alla lagaumgjörð og alla framkvæmd laga í samfélaginu, brotaþolum til góðs.

Þessi bylgja sem við erum partur af núna er bylgjan sem sprengdi ríkisstjórnina. Ríkisstjórnin á Íslandi sem sat aðeins í nokkra mánuði og endalok hennar er partur af kvenfrelsissögu Íslands. Sá endapunktur er partur af femínískri baráttusögu vegna þess að komið var að því að það risu svo sterkar bylgjur að ekki dugði að halla sér að hefðbundnum stjórnmálamælikvörðum um hagvöxt, efnahagsstjórnun og öðrum þeim mælikvörðum sem menn vilja gjarnan halla sér að þegar rætt er um stjórnmál. Nú var komið að því að kröfur þeirra sem höfðu hátt voru ágengari og sterkari en svo að það væri hægt að horfa fram hjá þeim.

Fjölskyldur og fulltrúar brotaþola Róberts Downeys vöktu máls á þessum úrelta lagabókstaf og þessari fráleitu framkvæmd, settu málið á dagskrá, ræddu uppreist æru og líka endurheimt lögmannsréttinda með dómi, sem hér hefur verið rætt í andsvörum milli hv. þm. Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur og hæstv. ráðherra. Fjölmiðlar fjölluðu um málið. Þeim ber að þakka. Fjölmiðlar hættu ekki. Fjölmiðlar tóku þátt í því að hafa hátt. Fjölmiðlar endurspegluðu það sem er gott í íslensku samfélagi, að við ætlum ekki að taka þátt í þöggun um glæpi af þessu tagi. Fyrir það ber að þakka.

Þegar stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tók málið fyrst til skoðunar að minni ósk í júlí kom mjög fljótt á daginn að stjórnsýslan að því er varðar uppreist æru er til skammar og hefur verið til skammar um mjög langt árabil. Þar kemur í ljós að framkvæmdin hefur verið vélræn, hún hefur verið án viðmiða. Þótt það standi í almennum hegningarlögum að forseti geti veitt mönnum uppreist æru ef formleg skilyrði séu uppfyllt og þar standi auk þess „færi umsækjandi sönnur, sem gildar séu metnar, á það, að hegðun hans hafi verið góð umræddan tíma“, þá hefur framkvæmdin orðið sú að það hefur dugað að kalla eftir umsögnum tveggja einstaklinga, sem kallaðir hafa verið valinkunnir menn þótt ekkert um það segi í lögunum sjálfum. Raunin hefur orðið sú að þessar umsagnir eru mjög almenns eðlis, fela í sér mjög almennt orðalag og engin viðmið eru til um hvað eigi að koma fram í þeim. Svo virðist sem dugi að æskufélagi segi: Þetta er góður gaur. Þetta sama ráðuneyti sem hefur hýst þessa framkvæmd um árabil vil ég leyfa mér að segja að sé ekki hafið yfir vafa í því að leggja til umbætur á löggjöf um þetta mál.

Ég vil brýna okkur öll sem hér erum og ekki síður þau sem verða hér aftur eftir næstu kosningar, með þeim nýju þingmönnum sem fá umboð þjóðarinnar, að halda því til haga að Alþingi sjálft þarf fyrst og fremst að horfa mjög gagnrýnum augum á þær lagabreytingar sem hér þarf að gera. Við þurfum að halda utan um þetta verkefni af því að partur af hinni ómögulegu framkvæmd er á ábyrgð innviða Stjórnarráðs Íslands. Því miður. Þannig er það og það þurfum við að ræða.

Frumvarp það sem hér liggur fyrir frá ráðherra er minnsta mögulega breyting á þessu lagaumhverfi. Eins og hér hefur komið fram þá standa út af stórkostlega mikilvæg álitamál eins og til að mynda starfsréttindi lögmanna sem er að mínu mati mál sem hefði átt að ljúka á þessu þingi.

Stjórnsýsla sú sem endurspeglast í þessari framkvæmd í dómsmálaráðuneyti um árabil er hluti af djúpstæðu skilningsleysi í íslenskri stjórnsýslu og íslenskum stjórnmálum á alvarleika áhrifa og afleiðinga kynferðisbrota. Það er nefnilega svo að ráðuneytið ber líka ábyrgð í því að hafa skapað tortryggni í kringum málið með óþarfa leyndarhyggju, með því að tregðast við fram í rauðan dauðann að afhenda gögn sem gerðar voru eðlilegar kröfur um að yrðu birt, eðlilegar kröfur almennings, eðlilegar kröfur fjölmiðla og loks eðlilegar kröfur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Því miður er það svo að þessi leyndarhyggja og þessi nálgun á þessi mál er líka mjög djúpstæð meðal ýmissa stjórnmálamanna. Í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fjallaði formaður nefndarinnar um málið ítrekað af ákveðnu alvöruleysi og yfirlæti sem að mínu mati sæmir ekki formanni eftirlitsnefndar þingsins, gerði því skóna að þessi gögn skiptu engu máli, að enginn hefði neitt með það að biðja um þau eða skoða þau o.s.frv. En annað hefur komið á daginn.

Þau sjónarmið sem hv. fyrrverandi formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar stóð fyrir í umræðunni eru sjónarmið sem verða að heyra sögunni til. Þetta eru sjónarmið sem við höfum því miður heyrt og heyrðum hér síðast í svörum hæstv. ráðherra Bjarna Benediktssonar í andsvörum við hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur. Lítið gert úr málunum, ákveðið yfirlæti, talað niður til þeirra sem vilja halda umræðunni opinni og á lofti. Þessi tími verður að vera liðinn. Við verðum að sýna brotaþolum þá virðingu og sýna þessari femínísku bylgju þann skilning að takast á við áhrif hennar með opnum huga, hlusta og bregðast við.

Í frumvarpinu eru eins og hér hefur komið fram minnstu mögulegu viðbrögð við því sem upp hefur komið. Í greinargerð með frumvarpinu er talað um lög sem þarfnast endurskoðunar verði frumvarp þetta að lögum. Það er gott. Það er aldeilis ágætt. Hins vegar er það líka svo að önnur mál verða líka að fylgja á eftir. Hvaða mál eru það, virðulegi forseti? Þessi vandi er svo djúpstæður að hér þurfum við þingmál sem leggur til úttekt á stöðu kynferðisbrota í réttarkerfinu öllu, tillögur til úrbóta sem fela í sér endurmenntun dómara, endurmenntun saksóknara, endurmenntun lögmanna, á þessu sviði. Við megum ekki hætta hér. Við eigum langt í land, en mjög mikilvæg skref voru stigin í sumar. Það er okkar að halda þessari baráttu áfram í þágu þeirrar opnu umræðu um áhrif kynferðisbrota í samfélaginu, þessi víðtæku áhrif yfirgangs og nauðgunarmenningar. Við þurfum að halda því til haga að það dugar ekki að taka eitt hugtak út úr hegningarlögum og halda svo uppteknum hætti. Það dugar ekki. Það er skref sem við eigum að stíga. Við eigum að stíga það og styðja það. En við megum ekki láta það duga vegna þess að það dugar ekki.

Við þurfum með víðtæku átaki í öllu réttarkerfinu, í öllu kerfinu, skólakerfinu, með fræðslu, endurmenntun og vitundarvakningu, að halda því á dagskrá að það er óþolandi að börn og konur verði fyrir kynbundnu ofbeldi dag eftir dag, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár, og menn leyfi sér að yppta öxlum yfir því.

Á dögunum var söfnunin Á allra vörum fyrir Kvennaathvarfið. Í viðtali við forstöðukonu Kvennaathvarfsins kom fram að þá á laugardaginn var voru 29 konur sem lögðust á koddann í Kvennaathvarfinu vegna þess að þær höfðu ekki annars staðar höfði sínu að halla. Hversu stór hluti er það af þeim sem eru að flýja ofbeldi frá sínum nánustu?

Meðan þessi mál eru enn þá svo, meðan íslenskt samfélag þarf Kvennaathvarf, meðan íslenskt samfélag þarf Stígamót, meðan íslenskt samfélag þarf á því að halda að við höfum hátt í fjölmiðlum og að brotaþolar séu studdir, þá þurfum við á femínisma að halda í stjórnmálunum, við þurfum á femínisma að halda í stjórnsýslunni. Við þurfum að horfast í augu við það að með öðrum hætti verður ekki þessi angi feðraveldisins brotinn á bak aftur.