147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

almenn hegningarlög.

111. mál
[15:04]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Eins og fram kemur í greinargerð með málinu ber málið það algjörlega með sér að það er unnið undir tímapressu. Það var raunar afstaða mín til þessa máls að það ætti að koma fram í bráðabirgðaákvæði við frumvarpið að fara þyrfti í endurskoðun á því innan tilskilins frests einmitt til þess að halda pressu á dómsmálaráðuneytinu að ljúka við málið. Það er alltaf hætta á því að mál sem þessi reki á reiðanum eða dragist úr hófi fram. Ég tek því undir áhyggjur hv. þingmanns, það þarf að liggja fyrir eins fljótt og nokkur kostur er. Það er aldrei gott þegar ný vandamál skapast við lagasetningu, en hér vakna sannarlega spurningar sem þarf að svara. Það verður verkefni nýs þings ásamt nokkrum öðrum að svara þeim.