147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

almenn hegningarlög.

111. mál
[15:09]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur fyrir yfirferð hennar. Mig langar að taka sérstaklega undir með þingmanninum um að það sé gleðiefni að áherslubyltingar, má segja, femínismans hafi breytt samfélaginu og hugum og viðmiðum flestra, langar mig að vona, hér á landi. Ég held að það sé gæðamerki samfélags þegar borgararnir sjálfir taka sig saman og tala hátt og skýrt um það sem þeim finnst ekki nógu gott í samfélaginu og að það sé styrkleikamerki samfélags að hlustað sé á það. Ég hef sjálf tekið þátt í þessari baráttu. Ég get vottað að það er ekki bara styrkur út á við heldur líka fyrir mann sjálfan. Ég tek undir með þingmanninum um að það er mikið gleði- og styrkleikamerki að mál hreyfist til betri vegar með þeim hætti.

Mig langar hins vegar að fá að spyrja hv. þingmann. Ég heyrði á yfirferð hennar yfir málið að umræðan í samfélaginu allt frá því í vor hafi hreyft við þessu máli. Mig langaði að fá að spyrja góðfúslega, þar sem það er dómsmálaráðherra sem hafði ein og sér, áður en þessi mál komust til umræðu í samfélaginu, þar sem réttlætiskennd hennar var misboðið — henni fundust þessi lög ekki nógu góð. Er ekki rétt að halda til haga og fagna því líka að ráðherra dómsmála hafi ein og sér tekið sjálfstæða ákvörðun um að gera eitthvað í málinu þar sem þetta væri ekki nógu gott, þrátt fyrir að enginn annar utanaðkomandi þrýstingur væri þar á?