147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

almenn hegningarlög.

111. mál
[15:11]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég get alveg þakkað hæstv. dómsmálaráðherra fyrir hlut hennar í að kom til móts við þetta andrúmsloft í samfélaginu og ekki síður fyrir að setja spurningarmerki við vélræna afgreiðslu mála í dómsmálaráðuneytinu, því að það hefur hún sannarlega gert. En ég vildi að ég hefði jafnframt séð að hæstv. dómsmálaráðherra og aðrir ráðherrar í ríkisstjórninni, kannski sérstaklega ráðherrar Sjálfstæðisflokksins, hefðu nálgast málið og umræðuna af meiri auðmýkt almennt. Því miður fór allt of mikið fyrir því að talað væri af yfirlæti um þessi mál. Án þess að ég vilji fara að ræða orð fjarstaddra þingmanna held ég að allir átti sig á hvað hér er átt við.

Ég vil þannig ekki láta hjá líða að halda hlut Sigríðar Andersen til haga í því að hún hafi komið til móts við málið með því að skoða það í ráðuneyti sínu. Mér finnst það mikilvægt. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að nefna það og halda þeim hlut ráðherra síns til haga í þessari umræðu. En eigi að síður held ég að það væri góð lexía fyrir stjórnmálin almennt að við hlustuðum meira eftir því að stjórnmálaumræðan snýst ekki bara um efnahagsmál, hún snýst líka um tilfinningar, líka um hvenær manni er misboðið, um þegar brotaþolum er nóg boðið, um hvernig börnum líður og hvernig fólki líður heima hjá sér. Pólitík snýst nefnilega líka um gildi og það hvers virði samfélagið er á hverjum einasta degi. Það finnst mér vera lærdómurinn eftir það þegar ríkisstjórnin sprakk núna á dögunum að menn þurfa að átta sig á að pólitík er flóknara viðfangsefni en bara efnahagslegir málaflokkar. Síðustu tvær ríkisstjórnir féllu, ekki vegna efnahagsmála, heldur vegna ákveðins trúnaðarbrests milli stjórnvalda og þjóðarinnar (Forseti hringir.) á hverjum tíma. Það finnst mér að þurfi líka að vera lærdómurinn.