147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

kosningar til Alþingis.

112. mál
[16:18]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið. Ég held að ég væri sammála því að gera þetta varanlega með þessum hætti, með því að breyta dagsetningunni. Það eru tvö mál sem eru á dagskrá í dag. Öðru hefur þegar verið vísað til nefndar og svo er þriðja málið sem snýr að útlendingalöggjöfinni sem fer inn í allsherjar- og menntamálanefnd. Ég velti fyrir mér, þar sem væntanlega sitja einhverjir hér í sal og eru að hlusta sem sitja í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, hvort þeir teldu rétt að gefa sér þann tíma, þótt ekki væri nema hálftími eða klukkutími, í fund og velta fyrir sér hvort hægt væri að gera eins og þingmaðurinn ræðir hér, að taka út þessa dagsetningu. Það er alveg ljóst að eins og við höfum séð hvernig hlutirnir hafa þróast eftir hrun þar sem kosningar hafa verið boðaðar fyrr þrisvar sinnum, að við erum einfaldlega komin með aðra dagsetningu. Venjan hjá okkur er nú að kjósa að hausti frekar en að vori. (Forseti hringir.) Það væri gott að menn kæmu með nefndarálit þar sem því væri beint til dómsmálaráðherra að skoða möguleikann á að leggja fram þess háttar frumvarp þegar nýtt þing kemur saman eftir kosningar.