147. löggjafarþing — 7. fundur,  26. sept. 2017.

almenn hegningarlög.

111. mál
[23:09]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Hér liggur fyrir nefndarálit með breytingartillögu frá allsherjar- og menntamálanefnd.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund fólk frá dómsmálaráðuneytinu.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á almennum hegningarlögum hvað varðar uppreist æru. Lagt er til að hætt verði að veita mönnum uppreist æru með stjórnvaldsákvörðun. Einnig er lagt til að fellt verði á brott ákvæði 2. mgr. 238. gr. laganna sem kveður á um að hafi maður, er sætt hefur refsidómi fyrir einhvern verknað, síðar öðlast uppreist æru sé ekki heimilt að bera hann framar þeim sökum, og leysi sönnun því ekki undan refsingu er svo stendur á.

Nefndin telur að með frumvarpinu sé verið að bregðast við úreltu fyrirkomulagi um veitingu uppreistar æru. Þess í stað verði mælt fyrir um það í viðeigandi lögum í hvaða tilvikum sakaferill skuli leiða til missis tiltekinna borgaralegra réttinda, svo sem kjörgengis, embættisgengis eða tiltekinna starfsréttinda.

Með brottfalli 85. gr. hegningarlaga eru stjórnarskrárvarin réttindi skert. Slíkt brottfall getur einnig haft áhrif á stjórnarskrárvarið atvinnufrelsi. Ef ákvæðið er fellt brott en endurskoðun á öðrum lögum fer ekki fram benda dómar Mannréttindadómstóls Evrópu til þess að slíkt ástand sé ólögmæt skerðing mannréttinda. Í ljósi þessa leggur nefndin til að brottfalli 85. gr. almennra hegningarlaga verði sett ákveðin tímamörk eða til 1. janúar 2019. Þannig skapist svigrúm fyrir heildarendurskoðun þeirra laga sem málinu tengjast og auk þess nægilegt svigrúm fyrir löggjafann að rýna þær breytingar, tryggja að mál fái þinglega meðferð og að gæði lagasetningar séu tryggð. Í þeirri vinnu verður unnt að leggja heildstætt mat á þær lagareglur sem eiga að gilda um borgaraleg réttindi manna, svo sem kjörgengi og atvinnufrelsi og þær skorður sem neytingu réttinda eru settar. Brýnt er að meta m.a. annars vegar hagsmuni samfélagsins og hins vegar hagsmuni einstaklinganna. Þannig verði tryggt að ekki skapist réttaróvissa um óákveðinn tíma um mannréttindi einstaklinga. Telur nefndin að með þessari breytingu sé fullnægt skilyrðum fyrir því að stjórnarskrárvörðum réttindum séu settar skorður enda sé það gert með lögum, í skýrum tilgangi, nauðsynlegt í lýðræðisríki og meðalhófs sé gætt.

Mikilvægt er að heildarendurskoðun fari fram á því fyrirkomulagi sem felst í uppreist æru og skilyrðum um óflekkað mannorð og að slík vinna verði unnin í samráði við önnur fagráðuneyti og hagsmunaaðila. Gefa þarf nægan tíma í þá flóknu vinnu, bæði hvað varðar frumvarpssmíð og þinglega meðferð. Nefndin leggur þó áherslu á að vinnu verði flýtt eins og unnt er og telur rétt að skoðað verði hvort hægt sé að áfangaskipta frumvarpssmíðinni. Í því samhengi telur nefndin brýnt að lagaákvæði um kjörgengi verði endurskoðuð sem fyrst og að unnt verði að gera nauðsynlegar breytingar á lögum um kosningar til sveitarstjórna fyrir sveitarstjórnarkosningar 2018.

Guðjón S. Brjánsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Við bætist nýr málsliður svohljóðandi: B-liður 1. gr. gildir til 1. janúar 2019.

Undir þetta skrifa allir nefndarmenn allsherjar- og menntamálanefndar.