147. löggjafarþing — 7. fundur,  26. sept. 2017.

almenn hegningarlög.

111. mál
[23:12]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta langt. Ég vil einfaldlega fagna því að við höfum náð sátt um hvernig við stöndum sem best vörð um borgaraleg réttindi þeirra sem fyrir þessu ákvæði verða.

Mig langar líka að ítreka að mjög mikilvægt er að við förum strax í að skoða reglur um kjörgengi. Það er mjög leiðinlegt að okkur hafi ekki tekist að komast að samkomulagi um að gera okkur kleift að breyta stjórnarskránni á næsta kjörtímabili þar sem það er að sjálfsögðu eitt sem verður að breyta í heildarendurskoðun lagabálks þessa þar sem stjórnarskráin, sem við öll vitum, gerir ráð fyrir óflekkuðu mannorði til þess að gerast kjörgengur til Alþingis. Við erum samt sem áður að sjá fram á einhvers konar bráðabirgðareddingu á því og við höldum áfram þessu úrelta hugtaki, óflekkað mannorð, sem margir hafa sett sig á móti í stjórnarskránni.

Þar að auki vil ég hvetja til þess að lög sem varða starfsréttindi manna og tengjast uppreist æru og óflekkuðu mannorði, þ.e. lögmenn og endurskoðendur, fái einnig sérstaka forgangsmeðferð á næsta þingi þar sem ég tel mjög brýnt að skorið verði úr um starfsréttindi þeirra stétta sem þessi lagabálkur nær yfir hið fyrsta.