147. löggjafarþing — 7. fundur,  26. sept. 2017.

almenn hegningarlög.

111. mál
[23:25]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Frú forseti. Það frumvarp sem við ræðum hér kemur ekki til af góðu. Það er hálftrist að vera að ræða það hérna, við öll grútpirruð klukkan hálftólf að nóttu eftir erfiða daga í vinnunni. En við skulum aðeins staldra við og átta okkur á þessum tímamótum. Þetta er lítið mál sem er bara lítill plástur á stórt sár, eins og bent hefur verið á. En þetta er dropi af þeirri femínísku bylgju sem sópaði ríkisstjórn úr valdastólum. Þetta er dropi af þeirri bylgju sem reis í baráttu kvenna í Rauðsokkahreyfingunni og í Samtökum um kvennalista, sem voru með fyrstu þingmönnum til að ræða kynferðisofbeldi innan veggja Alþingis. Af því að það að setja spurningarmerki við að hægt að væri að uppreisa æru barnaníðinga, var ekkert sjálfsagt mál fyrir 30 árum. Núna er það það. Núna er nefnilega ekki sjálfsagt mál að lagarammi sem sniðinn var utan um fólk í valdastöðum, lögmenn, þingmenn og endurskoðendur, fólk sem höndlar með völd og peninga, og hefur þá væntanlega verið hugsaður til að gera þá stofuhæfa eftir einhvers konar hvítflibbaglæpi eða hvað það var — þetta átti ekki að vera bakleið fyrir kynferðisofbeldismenn í ábyrgðarstöður. Og jú, þetta er bara lítill dropi en mikilvægur og skref í rétta átt af því að núna er búið að benda okkur á þennan vanda. Nú er búið að bregðast við honum.

Nú förum við, þau sem verða í þessum sal eftir kosningar, í það að laga reglur um uppreist æru, laga allt sem snertir það hvaða fólki við hleypum í ábyrgðarstöður. Ekki ábyrgðarstöður valda og peninga, eins og reglur um uppreist æru voru sniðnar utan um, heldur t.d. fólkið sem sér um börnin okkar, kennara, fólk sem sinnir æskulýðsmálum, heilbrigðisstarfsfólk. Það þarf að skoða þetta í miklu víðara samhengi en reglur um uppreist æru voru upphaflega hugsaðar fyrir. Við þurfum að eiga erfiða en mikilvæga umræðu um það hvaða starfsstéttir sinni þess konar störfum að margdæmdir barnaníðingar eigi bara ekkert erindi þangað inn. Það snýst ekki um borgararéttindi þeirra heldur um réttindi barna.

Ég er ekki dapur yfir því hvað við erum að gera lítið, eins og ég hef heyrt suma tala um í þessu máli, heldur er ég hoppandi kátur yfir því að samfélagið sé komið á þann stað að þetta skref sé stigið og það sé sjálfsagt og mikilvægt og nauðsynlegt að það sé stigið, að það að fólk taki ekki nógu alvarlega umræðu um kynferðisofbeldi geti fellt ríkisstjórn. Hér sitja ráðherrar umboðslausir fyrir aftan mig vegna þessa máls, vegna kynferðisbrotamanna, brotaþola og þeirrar umræðu sem varð í sumar og Íslands sem líður þetta ekki lengur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)