148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[11:55]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Mikið hefur verið rætt um stöðugleika hér úr þessum ræðustól og á fyrstu dögum þingsins, pólitískan stöðugleika, en það er annar stöðugleiki sem skiptir ekki síður máli og er mjög mikilvægur, þ.e. fjárhagslegur stöðugleiki ríkissjóðs. Það fer ekkert fyrir honum í þessu fjárlagafrumvarpi þegar allar ytri aðstæður kalla svo sannarlega eftir því.

Það er verið að dæla peningum í óbreytt kerfi, engar kerfisbreytingar eru boðaðar. Tökum heilbrigðiskerfið sem dæmi. Það er vissulega gott að auka þar við og við erum svo sem öll sammála um það, en það verður að nýta peningana skynsamlega og það verður að endurskoða kerfið sjálft. Ég hvet hæstv. heilbrigðisráðherra til að gera það.

Aukin framlög eru ekki alltaf ávísun á aukin gæði þjónustunnar. Auðvitað fögnum við þessum rúmlega 8 milljörðum, þessari aukningu, en það er ekkert um það í fjárlagafrumvarpinu hvert þessir peningar eru að fara innan heilbrigðiskerfisins. Það er bagalegt að geta ekki séð það. Fer þetta allt í Landspítalann? Hvað með heilsugæsluna og hvað með heilbrigðisþjónustuna út á land?

Það er athyglisvert að sjá hvað ríkisstjórnin er dugleg að skammta sjálfri sér peninga, 100 milljónir á ári. Samanburðurinn er sláandi, 50% aukning. Þetta verður hæstv. fjármálaráðherra að skýra nánar. Þessum peningum hefði betur verið varið til velferðarmála að mínu mati. Á sama tíma segir í stjórnarsáttmálanum að styrkja skuli Alþingi. Já, það á sennilega að ráða einhverja tvo, þrjá starfsmenn fyrir okkur, það er allt og sumt. Þetta er augljóslega í orði en ekki á borði eins og svo margt annað í þessu myndskreytta plaggi sem stjórnarsáttmálinn er og var svo lengi í fæðingu.

Ég ætla aðeins að víkja að kolefnisskattinum sem hækkar um 50% strax um áramótin og frekari hækkanir eru boðaðar. Þetta bitnar fyrst og fremst á landsbyggðinni og þeim sem aka mest, bifreiðaeigendum. Hæstv. samgönguráðherra hamraði á þessu fyrir kosningar, að þetta væri ómögulegt og ætti ekki að eiga sér stað. Framsóknarflokkurinn gaf þetta frá sér eins og öll önnur kosningaloforð fyrir ráðherrastóla og boðar meira að segja frekari hækkun eða skattheimtu á bifreiðaeigendur.

Fjármagnstekjuskatturinn mun hækka um tvö prósentustig strax um áramótin og hann bitnar á þeim sem vilja spara og þeim sem hafa sparað til efri áranna og það eru eldri borgarar. Þetta er í boði Sjálfstæðisflokksins, tilboðið til eldri borgara er rýrt og það er auk þess, eins og kom fram hér í umræðum í gær, lýðheilsumál að leyfa eldri borgurum, eldra fólki, að fá að vinna lengur. Það á ekki að vera ósanngjarnt að vera eldri borgari á Íslandi.

Hæstv. forsætisráðherra sagði hér áðan að þessi hækkun væri til þess að draga úr ójöfnuði. Ég er ósammála þessu, það er verið að refsa þeim sem spara. Þetta er ósköp einfalt.

Engin lækkun er boðuð á tryggingagjaldinu. Tryggingagjaldið er 20 milljörðum hærra í dag en það hefði verið væri skatthlutfallið það sama og fyrir hrun. 8,2% hækkun gjaldstofns tryggingagjalds á sama tíma og skattprósentan er óbreytt á milli ára er auðvitað út úr öllu korti.

Aðeins að húsnæðismálunum; þar er engin aukning, eins og komið hefur fram. Hvar er kosningaloforð Framsóknarflokksins um það að aðstoða nú unga fólkið, fyrstu húsnæðiskaupendurna, þá sem eru að fara í fyrsta sinn á húsnæðismarkaðinn? Það var þá kannski bara eins og sagt var, þetta kosningaloforð, galið eftir allt saman.

Engin breyting á barna- og vaxtabótum.

Vegamál, 1 milljarður en ekki 1,7 því að 700 milljónirnar eru ónýtt fjárheimild frá fyrra ári. Það var nú allt átakið í þessum málaflokki eins og við þekkjum, en svo að ég verði nú aðeins jákvæður er ánægjulegt að sjá innspýtingu í menntamálin. Ef ég vík sérstaklega að framhaldsskólanum eru aukin framlög þar. Nemendaígildi svokallað til framhaldsskóla hefur verið hækkað um 1,5% milli fjárlaga og þar kemur einnig fram að einkareknir skólar á framhaldsskólastigi fá aukin framlög til reksturs. Það er ánægjulegt að sjá að Vinstri grænir eru farnir að halla sér að einkaframtakinu og vera jákvæðir í garð þess. En á Suðurnesjum eru tveir skólar sem falla undir þennan flokk og hafa ekki fengið neina hækkun. Það eru menntastofnunin Keilir og Fisktækniskóli Íslands.

Þá ætla ég aðeins í lokin að víkja að Suðurnesjum sérstaklega vegna þess að nú á haustmánuðum var Reykjanesbær með mjög góða kynningu á skýrslu sem þeir létu gera, mjög vel unnin skýrsla þar sem sýnt var fram á það að fjárframlög hins opinbera til ýmissa stofnana á Suðurnesjum eru lægri en almennt gerist til annarra sambærilegra stofnana á landinu.

Þetta er auðvitað ótækt og ótrúlegt mál og ég hvatti hæstv. fjármálaráðherra til þess í ræðu í gær að leiðrétta þetta ranglæti og ég ætla að ítreka það hér og nú. Mikil fólksfjölgun hefur orðið á þessu svæði og það er afar brýnt að bæta í eða a.m.k. leiðrétta þetta ranglæti eins og ég sagði.

Það er af fjölmörgu öðru að taka í fjárlagafrumvarpinu og eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði er tíminn afar skammur til að fara í gegnum þetta. Maður á eftir að koma aftur og meira inn í þessa umræðu. Ég vil þó nefna eitt annað atriði sem er í stjórnarsáttmálanum, þ.e. að við ættum að hraða uppbyggingu á þriggja fasa rafmagni. Fjölmargir bæir búa ekki við þessi sjálfsögðu réttindi. Hins vegar er ekkert minnst á það hvernig á að fjármagna þetta í fjárlagafrumvarpinu og eins og svo margt annað sem ég sakna, og vonandi skýrist það í þessum umræðum sem við tökum þátt í hér.

Ég bind vonir við að ríkisstjórnin komi með skýrari sýn á það hvert það aukna fjármagn sem hún leggur fram fer. Í framhaldi af því er nauðsynlegt að fá að koma inn í þá umræðu.