148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[12:55]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir spurninguna. Varðandi vinnu hv. nefndar vil ég fyrst segja að við eigum enn eftir að hittast en erum, að loknu þessu andsvari væntanlega, að hlaupa yfir á nefndasvið og halda okkar fyrsta fund þar sem efnið er að fara yfir tímaplanið fram undan og vinnu nefndarinnar. Mér liggur við að segja og vísa í orð hæstv. fjármálaráðherra þegar hann talaði um að stjórnkerfið hefði allt unnið mikið afrek. Ég held að fram undan sé að þingið og hv. fjárlaganefnd vinni annað afrek. Þetta er knappur tímarammi. En við leggjum á okkur mikla vinnu og vöndum okkur eins og hægt er og tökum á móti gestum og reynum að rýna þetta frumvarp eins og kostur er við þessar kringumstæður. Ég hef fulla trú á því að við náum til lands í því.

Varðandi varasjóðina og fjáraukann. Ég tek undir með hv. þingmanni að þetta er einn af kostum þessa ramma sem lög um opinber fjármál eru. Bæði eru varasjóðir fyrir málaflokka sem ráðherrar geta, ef upp koma einhver frávik, unnið með og svo er einn stærri varasjóður fyrir öll málefnasviðin. Það ætti að draga úr því sem hefur verið tilhneiging til, að taka á frávikum í fjárauka. Það er þá aldrei svo að ekki geti komið upp einhver enn stærri frávik sem þarf að taka á í fjárauka. En inn í framtíðina vil ég taka undir það með hv. þingmanni að á einhverjum tímapunkti ætti það að vera liðin tíð.