148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:13]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir þessar hugleiðingar og vangaveltur. Ég tek undir þá sýn sem hann setur fram. Það er gríðarlega mikilvægt og það er staðreynd að fjölgun örorkulífeyrisþega er umfram allar okkar spár. Ég kom meðal annars inn á þetta í ræðu í gær við stefnuræðu forsætisráðherra. Það er líka áhyggjuefni að þarna er talsvert mikið af ungu fólki. Ungu fólki, sem kemur þarna inn vegna andlegra eða geðrænna veikinda eða annars slíks, fjölgar sérstaklega. Ég tel gríðarlega mikilvægt að við förum í vinnu sem snýr að kerfisbreytingu þarna. Við þurfum að halda áfram vinnu við starfsgetumatið sem hefur verið í þróun og tengist þeirri sýn að allir geti tekið virkan þátt í samfélaginu. Það er gríðarlega mikilvægt að það sé gert og samhliða því þurfum við að fara í endurskoðun á almannatryggingakerfinu, líkt og gert var gagnvart öldruðum. Það leggur þessi ríkisstjórn áherslu á og í fjárlagafrumvarpinu er sérstakur kafli þar að lútandi.

Samhliða því verður ríkisvaldið að koma inn og ræða við aðila vinnumarkaðarins og sýna þar gott fordæmi sjálft með því að skapa hlutastörf og störf þannig að þessir einstaklingar geti komið út á vinnumarkaðinn, þeir sem treysta sér til þess. Ég held að þar sé líka talsvert mikil vinna fram undan því að samhliða því þarf líka hugarfarsbreytingu hjá hinu opinbera og í atvinnulífinu.

Þetta er klárlega eitt af stærstu viðfangsefnum velferðarráðuneytisins og félags- og jafnréttismálaráðherra á þessu kjörtímabili. Ég hefði getað komið inn á nokkra punkta í viðbót sem ég verð að gera í seinna andsvari.