148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:37]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni fyrir hans yfirlit. Það er kannski ekki hægt að fara yfir margt á tíu mínútum, hvað þá eftir einungis 28 tíma í fjárlaganefnd. Ég fagna því sérstaklega, sem kom fram í máli hv. þingmanns, að þrátt fyrir aukin útgjöld er hugsunin sú að reyna að halda áfram að lækka skuldir, að byggja í haginn, að senda ekki reikninginn á framtíðarkynslóðir og reyna að sýna ábyrgð. Sérfræðingar, útlendir sem innlendir, benda á að aðhaldið verði að vera mikið og líka ASÍ og Samtök atvinnulífsins. Ég fagna því þessum tóni og ákveðinni ábyrgð sem felst í þessari nálgun.

Það er tvennt sem mig langar að spyrja út í. Annars vegar eru það efnislegar spurningar varðandi umhverfismálin, kolefnisgjöldin sem hækka nú um 50%. Mig langar að vita afstöðu hv. þingmanns, hvernig hann sér framtíðina, hvernig hann sér þessa hluti þróast á kjörtímabilinu. Við fáum misvísandi skilaboð um það hvernig kolefnisgjöldin eigi að vera; kannski hefur ekki enn náðst samkomulag innan ríkisstjórnarflokkanna. Ég vil gjarnan fá að heyra hvernig hv. þingmaður sér það fyrir sér að kolefnisgjöldin eigi að þróast.

Síðan eru það fréttir af því að verið sé að auka útgjöld til heilbrigðismála. Ég sé að heilbrigðisstofnanir í kjördæmi hv. þingmanns, Norðausturkjördæmi, — Heilbrigðisstofnun Norðurlands og Sjúkrahúsið á Akureyri — tala um að engin aukning og enginn stuðningur sé við þær. Hvernig sér hv. þingmaður málinu vinda fram hér á þingi gagnvart þeim stofnunum? Sér hann fram á breytingar í meðferð fjárlaganefndar hvað þetta varðar?