148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:41]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svarið er auðvitað mjög skýrt: Við þurfum langtímastefnu í uppbyggingu. Í þessum fjárlögum er einmitt aukning þar sem um helmingur fer til vegaframkvæmda hér á höfuðborgarsvæðinu, þar á meðal eru gatnamót í Hafnarfirði til að létta umferð, auka umferðaröryggi, lagfæra tvenn gatnamót þar og ein í Kjósinni á Vesturlandsvegi. Það er með öðrum orðum verið að forgangsraða þar sem umferðaröryggið skiptir mestu máli, umferðarþunginn, gera slíka hluti.

Í fimm ára fjármálaáætlun og nýrri fjögurra ára samgönguáætlun, sem þurfa auðvitað að tala betur saman en verið hefur, mun þessi stefna birtast til lengri tíma.

Í dag var til að mynda verið að opna fyrsta áfanga á Krýsuvíkurafleggjaranum, svo að dæmi sé tekið. Það verkefni heldur áfram. Tvö hringtorg á Reykjanesbrautinni, nálægt Leifsstöð, hafa verið lagfærð. Það er því margt sem er að gerast og við erum hreinlega að (Forseti hringir.) setja það niður fyrir okkur hvernig við getum gert hlutina eftir forgangsröð með langtímasýn og skynsemi að leiðarljósi þar sem umferðaröryggi skiptir öllu máli.

Og örstutt með borgarlínuna 2020: Þetta er langtímaverkefni. Ég get ekki svarað fyrir það hvar það verður statt 2020, en þetta er sennilega um 20 ára verkefni að mati þeirra sem gerst þekkja.