148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:46]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt að miðað við að allt verði óbreytt, miðað við gildandi lög, þá lækka veiðigjöldin, þ.e. miðað við uppgjörið eins og það er í dag. Það er ákveðið umhugsunarefni að ný ríkisstjórn ætlar ekki að nota tækifærið þegar breyta þarf lögunum — það þarf að breyta lögum, uppfæra þau — til að nálgast hina breiðu sátt, sem er svo nauðsynleg fyrir sjávarútveginn og samfélagið. Það er nauðsynlegt að ákveðið réttlæti komi fram í gjaldtöku í sjávarútvegi, að sanngjarnt auðlindagjald verði tekið af þeim sem hafa einkarétt á því að nýta sameiginlega auðlind þjóðarinnar.

Mér finnst þetta upplagt tækifæri fyrir hæstv. sjávarútvegsráðherra. Í stað þess að endurnýja gamla löggjöf — jú, jú, hafa uppgjörsaðferðina kannski eitt ár aftur í tímann í stað tveggja, reyna að koma til móts við einhver tæknileg atriði — eigum við að sýna meiri metnað í því að klára málið, leysa það þverpólitískt. Tækifærið er til staðar. Ég veit að hæstv. sjávarútvegsráðherra er mikill sáttasemjari í sér. Ég trúi ekki öðru en að hann beiti sér — þótt þess sjáist ekki endilega merki í stjórnarsáttmálanum að nálgast eigi verkefnið þverpólitískt — í ljósi umræðna um ný vinnubrögð og einhendi sér í að vinna að þessari sátt sem er svo mikilvæg fyrir grunnatvinnuveg þjóðarinnar.

Jú, svarið er skýrt af hálfu hæstv. sjávarútvegsráðherra: Við horfum upp á lægri veiðigjöld miðað við óbreytta stefnu ríkisstjórnarinnar. En ég hvet ríkisstjórnina til að nota tækifærið til að endurskoða bæði veiðigjaldalöggjöfina og líka innheimtu auðlindagjalds; reyna að hnýta þetta saman til að koma til móts við lítil og meðalstór útgerðarfyrirtæki á landsbyggðinni, til að taka tillit til erfiðrar stöðu útgerðarinnar eins og hún er hjá ákveðnum fyrirtækjum á ákveðnum sviðum en horfa líka til lengri (Forseti hringir.) tíma. Það þarf að ná sátt um auðlindagjaldið og hversu hátt það á að vera fyrir aðgang að sameiginlegum fiskstofnum þjóðarinnar.