148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:50]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst þetta eiginlega brjóstumkennanlegt metnaðarleysi núna þegar við stöndum frammi fyrir því að endurskoða veiðigjöld. Við vitum að það er tæknilegt mál en það eru engu að síður ákveðnar fjárhæðir sem þurfa að vera í fjárlögum. Þess vegna erum við að ræða þetta, að við notum ekki tækifærið til þess að hnýta þetta m.a. inn í stærri sátt. Það þýðir m.a. aukningu á veiðigjöldum/auðlindagjaldi. Eða eru stjórnarráðherrar, þingmenn, svona hræddir við að það eigi að taka auðlindagjald af útgerðinni? Er einhver hræðsla við það?

Ég hvet hæstv. ríkisstjórn, hæstv. forsætisráðherra sem og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, til að huga að þessu. Tækifærið á næsta ári er einstakt til að ná bæði sátt og sanngjörnu auðlindagjaldi þannig að þess sjáist merki í fjárlagafrumvarpinu. En þá þarf að taka ákvarðanir, hafa stefnu og hafa sýn. Sýnin er sú (Forseti hringir.) að við eigum að ná fram sanngjörnu auðlindagjaldi og við getum hnýtt það saman við endurskoðun veiðigjalda.