148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[16:37]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Þær voru allnokkrar. Ég ætla að reyna að fara yfir þær allar.

Stjórnarsáttmálinn er mjög nýsköpunarmiðaður. Aldrei hefur verið skrifaður eins nýsköpunarmiðaður sáttmáli og þessi. Við höfum fengið mjög góð viðbrögð frá bæði fyrirtækjum sem stunda mikla nýsköpun og eins frumkvöðlum og þeim sem þau mál snerta. Á þremur árum, frá árinu 2015, hefur Tækniþróunarsjóður og endurgreiðsla vegna rannsókna og þróunar hækkað um 80%, úr 2,6 milljörðum í 4,7. Framlög til Tækniþróunarsjóðs hækkuðu t.d. um 900 milljónir árið 2016, eða um 60%. Sú innspýting heldur sér bæði árið 2017 og 2018. Viðmiðunarfjárhæðirnar vegna rannsókna og þróunar, líkt og hv. þingmaður kom inn á, voru þrefaldaðar í fyrra. Það er skýrt í stjórnarsáttmálanum að við þurfum að endurskoða þetta fyrirkomulag með það að markmiði að afnema þakið. Við höfum þegar fundað með fulltrúum þeirra fyrirtækja sem kannski mest fer fyrir í þessu. Þetta eru atriði sem þarf að skoða. Það var vissulega ekki gert á þeim u.þ.b. fimm dögum sem við höfðum til að yfirfara fjárlagafrumvarpið. En það verður gert.

Nýsköpunarmálin fara auðvitað þvert inn á alla málaflokka. Þessi innspýting í menntakerfið hefur t.d. áhrif á nýsköpunarumhverfið. Það er talað um að fara í skoðun inni í heilbrigðiskerfinu sem snertir nýsköpun. Síðan er fjallað um nýsköpunarstefnu sem ég bind mjög miklar vonir við. Það er nefnilega líka partur af þessu að fara yfir það í hvað við setjum fjármuni, því að fjármunir í nýsköpunarmál, í þessa sjóði, stofnanir og annað, eru mjög miklir. Mér finnst alveg koma til skoðunar og í rauninni mikilvægt að fara yfir í hvað fjármunirnir fara og hvort við nýtum hverja krónu eins vel og við getum.