148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[19:42]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Það hefur verið áhugavert að sitja hér fyrsta daginn sinn á hinu hv. Alþingi og hlusta og fræðast og sjá hvernig hlutirnir ganga fyrir sig. Í dag hefur mönnum t.d. orðið tíðrætt um fórnfýsi ríkisstjórnarinnar hvað varðar frítekjumark á launatekjur eldri borgara. Jú, það er talað um að kostnaður við þá miklu greiðasemi sé um 1,1 milljarður kr. Mér þætti afskaplega ánægjulegt að vita hvernig í veröldinni er hægt að reikna það út að það sé kostnaður fyrir ríkissjóð að hækka frítekjumark á launatekjur eldri borgara upp í 100.000 kr. Staðreyndin er sú að frá því frítekjumarki sem er verið að stíga út úr núna, 25.000 kr., upp í þessar 100.000 kr., á þessar 75.000 kr. sem þarna ber á milli, og er verið að hækka núna, hafði áður verið, með þessum 25.000 kr., algjör okurskattlagning — ofurskattlagning. Það var byrjað á því að skerða þessar 75.000 kr. um 45% áður en þær voru að fullu skattlagðar. Þegar upp var staðið var ríkissjóður náttúrlega að blóðmjólka þessa einstaklinga sem voru þó að reyna að berjast upp fyrir þessar 25.000 kr. sem áður voru frítekjumark á launatekjur. Ef það kallast fórnfýsi ríkissjóðs í þessu fjárlagafrumvarpi, upp á 1,1 milljarð, að gefa fólki kost á því að borga eðlilegan tekjuskatt af launum sínum, þá er ég afskaplega tæp í reikningi og jafnvel ívið verri en ég hélt. En það er nú vel að þetta sé komið í 100.000 kr.

Það er einfaldlega þannig að sá sem vann sér áður inn 100.000 kr., og leyfði sér að hoppa þarna 75.000 krónunum upp fyrir þetta lúsarlega 25.000 kr. frítekjumark á launatekjur, uppskar hvorki meira né minna en 29.000 kr. Ég efast um að við getum nokkurs staðar fundið þess stað í kerfinu okkar í dag að önnur eins skattpíning eigi sér stað. Ég veit ekki til þess. Svo langt nær ekki mitt vit, en ef ég fer með rangt mál þá óska ég gjarnan eftir því að einhver leiðrétti mig, það væri kannski betra; svo lengi lærir sem lifir. Þetta er annað af því sem mig langaði að nefna.

Ég gæti beint máli mínu til umhverfisráðherra þegar við erum að tala um losun gróðurhúsalofttegunda, þegar við erum að tala um að selja heimildir okkar vegna gróðurhúsalofttegunda. Þar er fjáröflun inn í ríkissjóð upp á 290 milljónir. Erum við virkilega enn að selja heimildir okkar til þessarar losunar? Það er a.m.k. gert ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu. Mig langar að spyrja hæstv. umhverfisráðherra: Er það tilfellið? Erum við að gera það í alvörunni? Eða er þetta kannski eitthvað sem láðist að lagfæra í flýtimeðferðinni á fjárlagafrumvarpinu?

Ég vildi síður að við værum búin að því. Þó að markmiðin séu háleit og fín, að við eigum að vera kolefnalaus fyrir árið 2040, er kannski æskilegra að við byrgjum brunninn áður en við dettum ofan í hann í stað þess að vera dottin ofan í hann áður en við byrgjum hann. Mér finnst nær að líta til þess að selja þessar heimildir ekki frá okkur áður en við sjáum til með framhaldið; horfa kannski pínulítið á heildarmyndina og tjalda til lengri tíma en einnar nætur hvað það varðar.

Að endingu langar mig til að beina fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra. Mikið er gert úr samspili ríkisstjórnarinnar, stjórnvalda, og sveitarstjórnanna. Það á að gefa mikið í í menntamálum, er sagt í fjárlagafrumvarpinu. Það er vel, hvort sem það er mikið eða hvernig sem hver kýs að túlka það, allt sem er plús er jákvætt. Mig langar að spyrja: Er ekkert til sem heitir að setja fjármagn í það og taka höndum saman með sveitarfélögum að setja á fót gjaldfrjáls mötuneyti í grunnskólum landsins þannig að ekkert af grunnskólabörnunum okkar sé nokkurn tíma svangt.