148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[11:19]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það vill þannig til að af þessum 4.500 eldri borgurum sem eru færir um að vinna og geta það eru hugsanlega 10% 75 ára forstjórar sem hafa 900 þús. kr. á mánuði. Ég tel ekki að hin 90% eigi að gjalda fyrir það að til séu menn sem hafa slíkar tekjur. Ég tel að frítekjumarkið eins og það er núna, af atvinnutekjum, sé tómt rugl. Það á að afnema það, það á ekki að refsa fólki fyrir að geta unnið sér inn einhverjar krónur. Mjög nýlega kom til dæmis fram hugmynd um að eldri borgarar taki þátt í vinnu á barnaheimilum, sem er mjög vel. Hvaða eldri borgari fer úr inniskónum fyrir 100 þús. kr.? Bara í alvöru? Og borgar af því 40% í tekjuskatt, hæstv. fjármálaráðherra? Hvers vegna er þetta frítekjumark ekki einfaldlega afnumið?

Hitt sem mig langar til að geta um er að um það bil 20% af þessari 10% hækkun fjármagnstekjuskatts, sem nú kemur til, lenda á (Forseti hringir.) öldruðum. Hvað hyggst hæstv. fjármálaráðherra gera til þess að koma til móts við þann hóp?