148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[11:21]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru auðvitað engin rök í þessu máli að segja að það sé svo lítill hópur sem hafi það mjög gott að það sé bara alveg eins gott að afnema þakið með öllu. Það eru þá frekar rök fyrir því að setja mörkin aðeins ofar. Það eru alls ekki rök fyrir því að afnema með öllu frítekjumark vegna atvinnutekna að það sé tiltölulega lítill hópur sem hafi það svo gott. Ég kemst aldrei fram hjá þeirri staðreynd að á meðan manni finnst að það þurfi meira til þeirra sem hafa minnst á maður ekki að sjá eftir einni einustu krónu úr bótakerfunum til þeirra sem hafa það bara fínt. Ekki einni einustu krónu. Ég ætla ekki að setja eina einustu krónu úr bótakerfum ríkisins til þess sem hefur það gott á meðan við getum ekki sinnt þeim nægilega vel sem eru að berjast í bökkum. Það á aldrei að gera það. Og ég verð að segja það sömuleiðis hér, að nota þetta orðalag, að verið sé að hafa af fólki einhver réttindi í bótakerfinu, af fólki sem býr við góðar atvinnutekjur og hefur bara fína framfærslu — það er búið að snúa öllu á hvolf með þessari nálgun. Við erum með almannatryggingakerfi (Forseti hringir.) til þess að styðja við þá sem höllum fæti standa. Þetta er ekki réttindakerfi allra Íslendinga til að bæta framfærslu sína á efri árum. Þetta er bótakerfi til þess að styðja við þá sem veikast standa í samfélaginu.

(Forseti (SJS): Forseti verður að minna hæstv. fjármálaráðherra á að það er fleira af skornum skammti en peningar, líka tími.)