148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

ný stjórnarskrá, rannsókn á einkavæðingu bankanna.

[13:52]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður er í raun og veru með raðspurningar í óundirbúnum fyrirspurnatíma og er mjög erfitt að svara þeim öllum á þeim stutta tíma sem okkur er gefinn til að bregðast við. Eins og ég nefndi hér áðan var stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd með áframhaldandi rannsókn á einkavæðingu bankanna eftir skýrsluna um Búnaðarbankann og Hauck & Aufhäuser til skoðunar samkvæmt mínu minni, en ég sit þó ekki í nefndinni. Mig minnir þó að hv. þingmaður hafi setið í nefndinni. Umboðsmaður Alþingis var búinn að koma fyrir nefndina og lýsa því að í raun lægi allt fyrir um þá einkavæðingu sem hv. þingmaður vísar í í stóru rannsóknarskýrslunni, skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda að falli íslensku bankanna. En það er að sjálfsögðu Alþingis að meta hvort halda eigi áfram með þetta mál innan stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, og lít ég aftur til nýkjörins formanns hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Ég vil síðan segja um þann dóm sem hv. þingmaður vísaði til að hann féll fyrir tveimur tímum og ég hef ekki haft tök á því að fara yfir hann með fullnægjandi hætti (Forseti hringir.) en mun að sjálfsögðu gera það.