148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

tannlæknaþjónusta við aldraða og öryrkja.

[13:54]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég er afskaplega spennt fyrir 500 millj. sem nú á að veita í tannlæknaþjónustu eldri borgara og öryrkja og langar þar af leiðandi tala um lög um sjúkratryggingar, nr. 112/2008. Með leyfi forseta, langar mig að lesa 1. mgr. 1. gr. laganna sem hljóðar svo:

„Markmið laga þessara er að tryggja sjúkratryggðum aðstoð til verndar heilbrigði og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag …“

Mig langar að beina spurningu til hæstv. heilbrigðisráðherra: Hvenær hefur hæstv. heilbrigðisráðherra hugsað sér að semja við tannlækna og láta semja við tannlækna þar sem vitað er að það hefur ekki verið gert frá því árið 2004? Talið er að með síendurteknum reglugerðum og breytingum á reglugerðum hafi fyrir löngu verið kominn sá réttur sem á að tryggja 75% niðurgreiðslu tannlæknakostnaðar fyrir þá sem höllustum fæti standa og eru í þessu tilviki hópur aldraðra og öryrkja.

Ég er að hugsa hvort það sé bjartari tíð fram undan með blóm í haga og hvort eigi að semja eða hvort það eigi að láta þetta dingla svona áfram. Staðreyndin er sú að talið er að nú þegar skuldi ríkissjóður í rauninni 800 millj. í þessa þjónustu við eldri borgara öryrkja, þannig að þessar 500 millj. eru kannski pínulítið upp í það.