148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

"Í skugga valdsins: #metoo".

[15:25]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að þakka hv. þm. Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur fyrir að hefja máls á þessu umfjöllunarefni á þingi í dag. Það hefur verið verulega mikið í umræðunni en er sannarlega ekki komið að neinum endapunkti. Mig langar líka að nota tækifærið og þakka hæstv. dómsmálaráðherra Sigríði Andersen fyrir orð hennar hér í upphafi. Þau gefa góð fyrirheit um viðbrögð stjórnvalda í þessum málum.

Ég hef trú á að árið 2017 fari í annála sem árið sem aldalöng þöggun um kynferðislegt ofbeldi, áreitni og valdbeitingu leið undir lok. Konurnar sem stigu fram og sögðu frá lyftu þvílíku grettistaki, gáfu tóninn á þann hátt að við getum ekki annað en haldið umræðunni áfram, beitt okkur öll saman fyrir bættri menningu og aukinni virðingu þegar kemur að samskiptum kynjanna. Við þurfum nefnilega samstöðu um þennan nýja tón til þess að #metoo-byltingin hafi raunverulega áhrif fyrir okkur öll.

Mig langar að nota tímann og nefna tvennt: Í fyrsta lagi er það tómt mál að tala um að við Íslendingar búum í velferðarsamfélagi þegar það er hluti af veruleika kvenna og til þessa hluti af viðurkenndum veruleika kvenna að upplifa ofbeldi í leik og starfi. Auðvitað er kynbundið ofbeldi ekkert annað en ofbeldi. Það er engin ástæða til að setja annan merkimiða á það, einhvern merkimiða sem ætlað er að draga úr alvarleikanum og afleiðingunum, ætlað að hjúpa gjörninginn einhverju glensi, einhverri stemningu. Það er bara nóg komið.

Samfélag sem beitir sér ekki gegn kynbundnu ofbeldi er ekkert velferðarsamfélag. Þess vegna skiptir máli að slíkt ofbeldi og refsipólitíkin komist ofar á hina pólitísku dagskrá sem hér er verið (Forseti hringir.) að boða. Og það er vel. Hugmyndir stjórnmálanna um það hvernig við sem samfélag ætlum að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi og hvernig við ætlum að bregðast við.

Mig langar að nefna annan punkt, hvernig við getum beitt forvörnum og fræðslu til að koma í veg fyrir þá þjóðarskömm sem kynbundið ofbeldi er. Jafnréttiskennsla í skólum sem dregur úr staðalímyndum og fordómum leggur drög að jafnréttisvitund barna og unglinga og skiptir þar líka máli.