148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

"Í skugga valdsins: #metoo".

[15:33]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka kærlega fyrir þessa mikilvægu umræðu. Það er innan við mánuður síðan fyrstu yfirlýsingar Í skugga valdsins: #metoo komu fram. Það var nákvæmlega, ef ég man þetta rétt og séð rétt, 21. nóvember sl. að konur í stjórnmálum stigu fyrstar fram og sögðu kynbundið ofbeldi og áreitni eiga sér stað í heimi stjórnmálanna.

Undanfarnar vikur hafa svo fleiri konur stigið fram með svipaðar sögur. Sem betur fer er það líka svo að fleiri aðilar, svo sem vinnustaðir og félagasamtök, hafa ítrekað afstöðu sína gegn kynbundnu ofbeldi og það gefur okkur frekari von um að hægt verði að breyta menningunni sem virðist hamla eðlilegum samskiptum fólks í milli.

Við eigum að mínu mati — ég ítreka það — að þakka fyrir að konur segi frá reynslu sinni og upplifun. Ég get rétt ímyndað mér að það sé erfiðara en fólk heldur, en einhverjir kunna að segja að þetta sé nú ekkert, það sé varla hægt að fella tilteknar frásagnir undir kynbundna áreitni, hvað þá ofbeldi, en ég vil segja að það er alveg sama hvaða skoðun ég hef, eða aðrir ef út í það er farið, á frásögnum annarra. Það er hverrar konu réttur og hvers karls réttur, vil ég leyfa mér að segja, að segja frá eigin upplifun og reynslu. Það er mitt að hlusta og taka til mín hvað ég get gert til þess að breyta samfélaginu.

Því er punkturinn minn þessi: Hvað getum við gert hér til að koma þessu brýna máli áfram til samtals og þar með til breytinga?