148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

"Í skugga valdsins: #metoo".

[15:48]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Eitt af því sem staðið hefur réttlætinu og jafnvel réttvísinni fyrir þrifum í málum er lúta að hvers konar kynbundnu ofbeldi eða kynbundinni áreitni er að mínu mati tíminn. Við þekkjum svo margar sögur af konum sem ekki hafa stigið fram nógu snemma til þess að réttarvörslukerfið nýtist þeim í raun. Það er kannski helsti akkillesarhællinn í meðferð þessara mála. Það veldur því að þolendum kynferðisbrota finnst ekki bara að sér vegið með brotinu sjálfu heldur líka að réttarvörslukerfinu og það er alveg ótækt.

Ég tek eftir því að í aðgerðaáætlun Stjórnarráðsins, sem ég nefndi í ræðu minni áðan, er t.d. kveðið á um að þeir sem verða fyrir ofbeldi á vinnustað innan Stjórnarráðsins þurfi að stíga fram innan þriggja mánaða. Allt í lagi, ef það á að vera tímarammi þurfa auðvitað allir starfsmenn að átta sig á því og það þarf að vera öllum ljóst. Ég held að eftir umræðu sem nú hefur átt sér stað muni það reynast þolendum áreitni eða ofbeldis miklu auðveldara að stíga fram. Það er það sem ég held að við verðum að gera, þ.e. að gera fólki auðvelt að stíga fram svo hægt sé að bregðast við málunum þegar og þá af réttri stöðu vegna þess — nú verð ég sem dómsmálaráðherra að halda því til haga að við búum líka í réttarríki og hér gilda ákveðnar reglur um meðferð mála. Við verðum þá að reyna að reka þessi mál innan þess ramma. Þessi umræða mun að mínu mati tvímælalaust hafa þau áhrif að allt muni horfa til betri vegar. Ég þakka málshefjanda og öllum þeim sem hér hafa tekið þátt.