148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

nýting forkaupsréttar ríkisins að hlutabréfum í Arion banka.

47. mál
[17:00]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Herra forseti. Ég þakka þessa ágætu en reyndar stuttu umræðu. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni sérstaklega fyrir að sýna málinu áhuga. Við fylgjum því vonandi eftir í sameiningu í efnahags- og viðskiptanefnd. Það liggur á að leiða þetta gríðarlega stóra hagsmunamál almennings á Íslandi til lykta. Hér er um að ræða alveg gífurleg verðmæti og sést best á því, eins og ég nefndi áðan, hversu háar tölur, hversu miklar upphæðir stjórnvöld hugsa sér eða sjá a.m.k. fyrir sér að þau geti tekið út úr bönkunum tveimur sem þau halda utan um, Íslandsbanka og Landsbanka. Það væri hæglega hægt að taka u.þ.b. 100 milljarða út úr Arion banka einum og sér miðað við þau möt sem við höfum séð, m.a. mat Danske bank sem bar stærð íslensku bankanna saman við aðra norræna banka, þannig að það væri hægt að uppfylla öll skilyrði um eiginfjárhlutfall og öll varúðarviðmið þar ofan á en minnka samt eigið fé Arion banka um nærri 100 milljarða kr.

Svoleiðis að það er augljóst, herra forseti, til hvers refirnir eru skornir, hvað menn ætla sér með þetta, og óskiljanlegt að stjórnvöld skuli ekki sinna þessu máli. Ég vona að það fari ekki svo að það verði fyrst eftir 10 eða 15 ár skrifuð rannsóknarskýrsla um hvers konar mistök hafi verið gerð í þessu máli og reynt að komast til botns í því hvað stjórnvöld voru eiginlega að hugsa. Ég vona að við tökum þá umræðu núna á meðan enn er hægt að grípa inn í.

Ég minni á það sem ég nefndi hér stuttlega í fyrirspurnatíma fyrr í dag að samkvæmt fyrrnefndum stöðugleikaskilyrðum ber Kaupskilum, dótturfélagi Kaupþings, þau héldu utan um bankann, að greiða ríkinu skuldabréf, standa við sinn hluta af restinni af stöðugleikaframlögunum innan árs eða ég held að það sé reyndar orðið minna en það. Og þeim ber að gera þetta með því annaðhvort að selja Arion banka og nýta það þá sem fyrir kemur til að greiða þetta bréf, eða með því að afhenda bankann. Þetta er sett í samhengi við þetta, svoleiðis að stjórnvöld komast ekkert hjá því að taka afstöðu til málsins. Þessir aðilar munu vilja selja bankann væntanlega á hlutabréfamarkaði eða restina af honum á nýju ári og þá munu stjórnvöld neyðast til að taka afstöðu til málsins. Þá verður staðan orðin enn þrengri ef menn gera ekkert í millitíðinni.