148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

fæðingar- og foreldraorlof.

24. mál
[17:47]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil bara taka undir það góða mál sem er hér flutt af þingmönnum Framsóknarflokksins og tel löngu tímabært að það fái afgreiðslu hér á þingi. Þetta er í fimmta sinn sem það er flutt og tímabært að það fái þá meðhöndlun sem það á skilið og afgreiðslu. Því miður hefur fæðingarþjónusta dregist saman vítt og breitt um landið. Konur þurfa að fara um langan veg til að sækja slíka þjónustu með tilheyrandi kostnaði, vinnutapi og líka auknum kostnaði við að útvega sér húsnæði. Þetta er mjög bagalegt og dregur úr áhuga fólks að búa á þeim stöðum á landsbyggðinni þar sem þarf að sækja fæðingarþjónustu um langan veg. Þetta er sú stund í lífi hverrar fjölskyldu og konu sem er mikilvægust og allir vilja hafa þessa þjónustu sem öruggasta og vera ekki undir álagi og þurfa ekki að taka einhverja áhættu í þessum efnum.

Ef vandamálinu yrði mætt eins og hér er lagt til, bæði varðandi fæðingarstyrkinn og fæðingarorlofið, skiptir það gífurlega miklu máli. Svo eru aðrir þættir sem þarf líka að horfa til varðandi kostnað sem fylgir þessu sem ég held að þurfi á taka á annars staðar, húsnæðiskostnað og vinnutap beggja foreldra sem í mörgum tilfellum er mikið. Við þekkjum dæmi vítt og breitt frá landsbyggðinni þar sem slík þjónusta er ekki lengur fyrir hendi nálægt viðkomandi foreldri og mikill kostnaður og útlát fylgja þessu. Þetta er því mikið jafnréttismál í sambandi við búsetujafnrétti og búsetuöryggi. Þetta er stór liður í að styrkja búsetuskilyrði á landsbyggðinni fyrir foreldra og ég væri mjög glöð að sjá þetta mál fá góða afgreiðslu.

Og þótt það sé ekki vinsælt úr þessum ræðustól að koma með sögur af sjálfum sér er ég landsbyggðarkona og hef átt fjögur börn, þrjú yfir vetrartímann þegar maður þurfti að vera fjarri sínu heimili og bíða eftir fæðingu, án maka, og var svo heppin að eiga fjórða barnið að sumri til. En það geta ekki allir stýrt fæðingum inn á sumartímann. Þótt landsbyggðarkonum sé margt í lófa lagið held ég að það sé ekki leiðin til að bæta þessa hluti.