148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[15:32]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég er mikið til sammála því sem fram kom í máli hv. þm. Þorsteins Víglundssonar, en ég hjó þó eftir því í máli hans að hann virtist vera tilbúinn til þess að gefa meiri séns hvað varðar aukningu í fjármagnskostnaði en í öðrum liðum, þ.e. að það væri einhvern veginn réttlætanlegra af því að það væri æskilegt.

Þá langar mig til þess að spyrja í ljósi þess að krafan í lögum um opinber fjármál er að það sem fram kemur í fjáraukalögum skuli vera „tímabundið, ófyrirséð og óhjákvæmilegt“. Það var kannski ekki óhjákvæmilegt heldur bara æskilegt, eins og fram kom í máli hv. þingmanns. Er það nóg til þess að réttlæta þetta? Er þetta æskilegt frekar en t.d. að auka í lyfjakostnað eða laga vegi, sem rætt hefur verið? Mér finnst það ekki vera æskilegra en að fólk fái lyf og að fækka holum í vegum. Það væri gaman að heyra um það frá hv. þingmanni.