148. löggjafarþing — 7. fundur,  21. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[17:09]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessi svör. Ég skil það en verðtryggingin bitnar yfirleitt á eldri borgurum sem taka örugga fjárfestingu sem gefur minnst og lenda þar af leiðandi langverst í henni.

Hitt sem ég myndi vilja átta mig á er hvernig þið viljið útfæra hugmyndina. Þú talar um borgaralaun, hvernig viltu útfæra þau? Þessi umræða þyrfti að vera um það. Ég myndi vilja fá að vita hversu viðamikið þetta á að vera og hvernig þú hugsar það.

Eins og ég segi varðar þetta helst eldri borgara. Hugsið ykkur, það er gerð krafa til eldri borgara og öryrkja um hver áramót um að þeir áætli verðbólguna fram í tímann. Það er eiginlega gerð krafa á okkur um að við séum snillingar í fjármálum vegna þess að við eigum að vita um raunhækkun fram í tímann hjá okkur til þess að við fáum réttan útreikning og fáum ekki skerðingar 1. júlí sem var áður 1. ágúst, skerðingardaginn mikla. Ef það er gerð krafa til okkar um að reyna að reikna þetta út skil ég ekki að þeir sem eru í þessu dagsdaglega, eins og bankar og aðrar stofnanir, geti ekki reiknað þetta út og ríkið bara einn, tveir og þrír. Það er undarlegt að við eigum að geta þetta ef þeir geta það ekki.