148. löggjafarþing — 7. fundur,  21. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[18:04]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það var áhugavert að hlusta á ræðu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanns Miðflokksins. Ég get um margt verið sammála því sem hann sagði.

Það sem hins vegar vefst fyrir mér, hæstv. forseti, er að það liggur fyrir að hv. þingmaður er á móti því frumvarpi og þeim breytingum sem verið er að leggja til. Látum það gott heita. Það sem ég átta mig hins vegar ekki á og hef ekki áttað mig á frá því Miðflokkurinn varð til og síðan í kosningabaráttunni, það hefur ekki breyst og hefur ekki neitt gerst hér í þingsal sem hjálpar mér til þess, er stefna Miðflokksins í skattamálum. Þess vegna þætti mér vænt um að fá svar við því, þannig að við getum haldið áfram að ræða hér um skattstefnu almennt og hver hún eigi að vera: Hver er stefna Miðflokksins í skattamálum? Hver er t.d. stefna Miðflokksins þegar kemur að skattprósentu fjármagnstekna? 10, 20, 15%? Hvað leggur hv. þingmaður til og flokkurinn? Hvernig vill hv. þingmaður haga tekjuskattskerfinu? Hvernig á samspil vaxtabóta og barnabóta við tekjuskattskerfi einstaklinga að vera? Er þingmaðurinn yfir höfuð hlynntur því að það séu einhverjir skattalegir hvatar í kerfinu til að stuðla að orkuskiptum, til að orkuskiptaáætlun sem flestir eða margir þingmenn sem nú eru hér tóku þátt í að samþykkja, nái fram að ganga? Er hv. þingmaður t.d. hlynntur slíku?