148. löggjafarþing — 7. fundur,  21. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[18:18]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta efh.- og viðskn. (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Herra forseti. Ég tala hér fyrir nefndaráliti 4. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga. Það er að ýmsu að huga þegar kemur að umræðu um fyrrgreint frumvarp og fjárlagaumræðunni almennt. Það er auðvitað hér sem efnahagsstefna stjórnvalda birtist hvað skýrast, þ.e. í þeim útgjalda- og tekjuráðstöfunum sem er að finna í þessum frumvörpum. Íslensk stjórnvöld hafa mjög lengi verið gagnrýnd fyrir aðhaldsleysi í ríkisfjármálum sérstaklega á tímum sem þessum, á tímum mikillar þenslu í efnahagslífinu. Það er ágætt til upprifjunar að muna það að í uppgjöri ríkisfjármálanna á árunum 2005–2007 var aðhaldið miklu meira en núna, miklum mun meira. Afgangur af ríkissjóði nam á þeim árum á bilinu 5–6% af vergri landsframleiðslu. Hér erum við að tala um rétt liðlega 1% afgang á næsta ári ef að líkum lætur. Engu að síður voru stjórnvöld gagnrýnd fyrir allt of mikið aðhaldsleysi, algjöran skort á ráðdeild í ríkisútgjöldum við þær kringumstæður, enda kom á daginn að það þurfti að skera verulega niður í þjónustu við borgara landsins þegar kreppti að. Vissulega var það óvenju djúp niðursveifla á árunum sem fylgdu í kjölfarið, en það var alveg ljóst að ríkissjóður hafði veitt loforð sem hann gat ekki staðið við nema í hápunkti hagsveiflu.

Það virðast því miður ætla að vera endurtekin mistök í hagstjórninni núna að þrátt fyrir öll þessi varnaðarorð í kjölfar reynslunnar af árunum 2005–2007, þrátt fyrir allar þær skýrslur sem hafa verið skrifaðar af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, af Seðlabanka, af aðilum eins og Samtökum atvinnulífsins, Viðskiptaráði, Samtökum iðnaðarins, Alþýðusambandinu, svo mætti áfram telja, erum við enn og aftur að endurtaka sömu mistök.

Það er athyglisvert í því samhengi hversu litla athygli þetta ábyrgðarleysi stjórnvalda vekur í fjölmiðlaumræðu og er ágætt að rifja upp að fjölmiðlar gagnrýndu einmitt harðlega stjórnvöld á þeim tíma, þ.e. eftir á, fyrir aðhaldsleysið og vísuðu m.a. til aðvarana fyrrgreindra aðila, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, OECD og ekki síst Seðlabanka. Þá var því borið við að þessar aðvaranir, kannski ekki síst aðvaranir Seðlabanka sem gjarnan talar undir rós, hefðu verið óljósar og óskýrar, þess vegna hefði kannski stjórnvöldum verið að einhverju leyti vorkunn að bregðast ekki við þeim.

Seðlabankinn hefur tekið til máls aftur í þessu samhengi. Vissulega jafn varfærið, jafn óljóst, jafn loðið myndi einhver segja og fyrr, en þó er vert að hafa í huga orð hans og, með leyfi forseta, vitna ég í Peningamál bankans frá því núna í nóvember eða desember að ég hygg:

„Minna aðhald mun því óhjákvæmilega hafa í för með sér að vextir og gengi krónunnar verða hærri en ella hefði orðið.“

Kannski ekki löng setning, en þetta þýðir einfaldlega að bankinn boðar vaxtahækkanir, sem þýðir aftur að líkur eru á því að gengi styrkist sem grefur síðan undan útflutningsatvinnugreinunum sem við viljum einmitt byggja efnahagslegan viðgang okkar á til lengri tíma litið, ekki hvað síst tækni- og sprotafyrirtæki sem við viljum búa til öflugt og gott starfsumhverfi fyrir. Það er ágætt að hafa það í huga að í umsögn Seðlabankans um fjárlagafrumvarp þessarar ríkisstjórnar er jafnframt varað við því að aðhaldsstig ríkisfjármálanna sé að minnka verulega frá því sem bankinn áður taldi og gerði ráð fyrir í sínum spám sem eykur enn frekar á þessa hættu.

Það er líka vert að hafa í huga að frá því að fjármálaáætlun, sem enn er í gildi, var samþykkt í vor hafa hagvaxtarforsendur heldur styrkst, enda er hér verið að ráðstafa í fjárlagaumræðunni núna töluverðum tekjuauka frá því sem þá var gert ráð fyrir. Það fer að sjálfsögðu allt í útgjöld sem þýðir að það er enn mikilvægara en áður að sýna ráðdeild og aðhaldssemi í ríkisrekstrinum. Það verður því að telja afar gagnrýnisvert að ný ríkisstjórn nálgist mikilvægt hlutverk ríkisfjármálanna í hagstjórn af svo mikilli léttúð.

Nú er það þannig að sýn okkar á umfang skattheimtu, umfang ríkislögmálanna er misjöfn. Um það snýst pólitíkin. Ég er enginn sérstakur aðdáandi hárra skatta, hvað þá skattahækkana. Það er alveg ljóst að skattar á Íslandi eru háir í alþjóðlegu samhengi. Það væri full ástæða til að nýta svigrúm til þess að lækka skatta hér. En staðan okkar er líka erfið því að skuldir okkar eru enn talsvert háar. Við skuldum liðlega 900 milljarða að líkum í árslok í beinum skuldum ríkissjóðs, en í þessu samhengi gleymist líka að gera ráð fyrir 600 milljarða lífeyrisskuldbindingu ríkissjóðs sem hefur vaxið mjög hratt á undanförnum árum. Þrátt fyrir að myndarlega hafi verið greitt inn á hana t.d. í tíð síðustu ríkisstjórnar þá er það enn svo að við erum með 600 milljarða skuldbindingu. Hún vex ár frá ári þrátt fyrir allar innborganir. Það er mér raunar enn hulin ráðgáta hvernig við ætlum að vinna bug á 600 milljarða lífeyrisskuldbindingu með því að hósta inn á hana 5–7 milljörðum á ári. Í öllu falli er alveg ljóst að við kjöraðstæður sem nú eru í efnahagslífinu er rík ástæða til þess að forgangsraða í niðurgreiðslu skulda og skuldbindinga til þess að það sé svigrúm í ríkisfjármálunum þegar kreppir að aftur til að sinna grunnþörfum samfélagsins. Þetta er gríðarlega mikilvægt.

Síðan eru auðvitað flokkar sem myndu kjósa einfaldlega hærra skattstig og þá hærra stig samneyslunnar. Það er góð og gild pólitík sem getur í sjálfu sér alveg farið saman með ábyrgri fjármálastjórn svo lengi sem útgjöld ríkissjóðs eru fjármögnuð með varanlegum hætti til lengri tíma litið. Ég er ekki sammála þeirri pólitík, en hún getur alveg staðist mál ábyrgrar ríkisfjármálastjórnar. Vandinn er hins vegar sá að hér eru í ríkisstjórn flokkar sem eru ekkert sammála um þessa grundvallarpólitík þegar kemur að ríkisfjármálunum. Hér eru flokkar sem vilja mun meiri ríkisútgjöld en eru í dag og hér eru flokkar sem myndu gjarnan vilja lækka skatta. Þessir flokkar eru að reyna að sameina þessa gerólíku pólitísku sýn sína með því að gera hvort tveggja, sem er stórhættulegt. Það hefur verið reynt áður og fór ekki vel, svo það sé enn og aftur ítrekað. Þetta er hætta í ríkisfjármálum sem við verðum einfaldlega að taka alvarlega.

Það er full ástæða til þess að hraða niðurgreiðslu opinberra skulda við þessar kringumstæður. Við erum að greiða þriðju hæstu vexti OECD-ríkjanna þrátt fyrir góðan árangur í niðurgreiðslu og lækkun ríkisskulda á liðnum árum. Það gefur augaleið að ríkissjóður sem greiðir liðlega 70 milljarða í vexti á ári hefur minna svigrúm en ella til að bregðast við ef hallar undan fæti í hagkerfinu á nýjan leik. Það er ágætt að hafa í huga í þessu samhengi að Samtök atvinnulífsins hafa tekið saman í umsögn sinni um fjárlagafrumvarpið hversu brothætt ríkisfjármálin eru í raun og veru. Bara það eitt að ekki yrði hagvöxtur á næsta ári, við værum á núlli, myndi þýða að ríkissjóður yrði að óbreyttu rekinn með 10 milljarða halla. Örlítill samdráttur, 1% samdráttur í landsframleiðslu, myndi þýða 25 milljarða halla. Svo mætti áfram telja. Það þarf ansi lítið að gerast til þess að það sé engum afgangi af ríkisfjármálunum til að dreifa.

Þess vegna leggur 4. minni hluti á það áherslu að við gætum okkar við þessar kringumstæður, að við höldum áfram að sýna varkárni á þessu sviði, að við höldum áfram að leggja alla höfuðáherslu á að lækka skuldir eins hratt og við getum við núverandi kringumstæður. Við höfum býsna góð tækifæri til þess. Til þess þarf auðvitað að halda aftur af útgjaldaþenslunni, nú eða ef ríkisstjórnin er áfram um að auka útgjöld verulega frá því sem nú er þá verður hún einfaldlega að horfast í augu við þann veruleika að þá þarf hún líka að hækka skatta og fjármagna útgjöldin til lengri tíma litið. Annars er hún í raun og veru bara að ganga á varasjóði ríkissjóðs og ætlar þá næstu ríkisstjórn að takast á við að fjármagna þau útgjaldaloforð sem þessi ríkisstjórn er að veita. Í því felst engin ábyrgð.

Þegar kemur að einstökum liðum þessa frumvarps þá langar mig að staldra fyrst við áform um hækkun fjármagnstekjuskatts. Það hefur lengi verið löstur á íslensku skattkerfi hvað við breytum því ört og með litlum fyrirvara yfirleitt. Því miður er það svo að pólitísk stefnumótun í skattkerfi virðist fyrst og fremst markast af fjármögnunarþörf ríkissjóðs á næsta ári þannig að framkvæmdarvaldið sest niður að hausti þegar fjárlög liggja fyrir og hugar að því hvernig það eigi nú að fjármagna það sem það er búið að lofa í útgjöld á næsta ári. Þá koma skattbreytingar gjarnan fram í desember sem taka eiga gildi 1. janúar á næsta ári með mánaðarfyrirvara fyrir þá sem fyrir þessum skattbreytingum verða.

Í hinu stóra samhengi mætti segja að 2% hækkun á fjármagnstekjuskatti sé kannski ekki ýkja mikil, en það má líka spyrja sig að því, þegar jafnframt er boðuð grundvallarendurskoðun á gjaldstofni fjármagnstekjuskattsins, hvort ekki væri nær lagi að bíða með ráðstöfunina þangað til að búið er að ákveða hver gjaldstofninn á að vera. Því í þessu getur allt eins falist skattalækkun til framtíðar ef við veitum t.d. heimildir til skattfrádráttar eða vaxtafrádráttar á móti, eða ef áform eru um eins og ný ríkisstjórn hefur látið skína í að skattleggja raunvexti með einhverjum hætti. Það gefur augaleið eins og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson benti á í fyrri ræðu að það þarf afskaplega litla verðbólgu til þess að lækka verulega tekjur ríkissjóðs af nýrri skattprósentu, 22%. 2–3% verðbólga sem er nú tiltölulega hófleg í okkar samhengi myndi einfaldlega þýða að tekjur ríkissjóðs af þeim skatti myndu lækka verulega.

Ég held að það væri miklu meira í anda vandaðra vinnubragða að taka ákvarðanir sem þessar í tíma, slá þessari áformuðu hækkun einfaldlega á frest og klára vinnuna, ljúka endurskoðun á gjaldstofninum og hvernig eigi þá að standa að framtíðarskattlagningu fjármagnstekna til lengri tíma litið.

Ég held að sé vert að hafa í huga tvennt a.m.k. við þá endurskoðun. Hvers kyns áform um að reyna að skattleggja raunvexti þýðir í raun og veru að verið er að endurvekja verðbólgureikningsskil á Íslandi sem við sögðum skilið við fyrir að verða tveimur áratugum síðan. Þetta þýðir að einstaklingar og fyrirtæki þurfa að halda utan um einhvers konar raunverðmætisþróun á eignum sínum jafnvel mörg ár aftur í tímann. Þetta mun flækja skattkerfið alveg gríðarlega. Þetta kann að hljóma einfalt þegar á að skattleggja vexti á innlánsreikningi. Það er alveg rétt, þar verður uppgjörið sjálfsagt tiltölulega einfalt, en þegar kemur að söluhagnaði skuldabréfa eða hlutabréfa, hvernig eigi að meðhöndla arðgreiðslur, söluhagnað af fastafjármunum og svo mætti áfram telja, mun þetta flækja utanumhaldið verulega. Þess vegna held ég að það sé algjört óráð að horfa til áforma um skattlagningu á raunávöxtun.

Hins vegar er það alveg rétt sem ítrekað hefur verið bent á að raunskattlagning okkar á fjármagnstekjur er býsna há í alþjóðlegu samhengi þrátt fyrir að við höfum tiltölulega lága skattprósentu t.d. í norrænu samhengi. Það stafar einfaldlega af því að annars staðar á Norðurlöndum eru heimildir til miklu meiri frádráttar frá fjármagnstekjum en tíðkast hér á landi. Þar væri ágætt, sér í lagi fyrir heimilin í landinu, að horfa til heimildar til þess að draga vaxtakostnað heimilanna, m.a. vegna húsnæðisskulda, frá fjármagnstekjum þeirra og, til að gæta jafnræðis, einnig frá atvinnutekjum. Húsnæðisstuðningur okkar gæti þá falist í skattfrádrætti frekar en beinum vaxtabótum eins og er í dag og sem hefur rýrnað mjög að raungildi og ég kem að nánar aðeins síðar.

Að þessu held ég að þurfi að gæta. Ég held að við þurfum að hafa í huga þegar áformað er að hækka fjármagnstekjuskatt að þegar fjármagnstekjuskattur var ákvarðaður 10% á sínum tíma var það einmitt út af sögulega hárri verðbólgu hér á landi. Þá var reynt að koma til móts við sjónarmið um skattlagningu raunávöxtunar með lágri skattprósentu. Þarna væri vert að horfa frekar til sambærilegs fyrirkomulags, þ.e. að nafnávöxtun væri skattlögð til einföldunar, en horft frekar til skattprósentunnar og heimildar til frádráttar til þess að tryggja einfaldleika kerfisins áfram og sanngirni þess, ekki síst gagnvart heimilunum.

Í ljósi þessa leggur 4. minni hluti til að þessari breytingu verði einfaldlega frestað og tekist verði á um þetta þegar endurskoðun gjaldstofns er lokið.

Standi áform um hækkun fjármagnstekjuskatts óbreytt styður 4. minni hluti tillögu meiri hlutans um að hækka frítekjumark fjármagnstekna úr 125 þús. kr. í 150 þús. kr. Ég held að það sé mjög mikilvæg ráðstöfun til þess að tryggja það að hið hefðbundna heimili verði ekki fyrir verulegum skattahækkunum enda er það líka í samræmi við loforð Vinstri grænna fyrir kosningar sem töluðu um engar skattahækkanir á almenning.

Þá kemur að vaxtabótum. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að tímabundnar útreikningsreglur og viðmiðunarfjárhæðir vaxtabóta verði framlengdar um eitt ár. Það er ágætt að hafa í huga í þessu samhengi að með þessu orðalagi er talað um að koma í veg fyrir lækkun á vaxtabótum. En þetta bráðabirgðaákvæði er orðið ansi úr sér gengið í raun og veru frá því að það var upprunalega sett. Ef horft er á viðmiðunarfjárhæðir þá held ég að þær hafi ekki verið verðbættar með sömu samviskusemi og krónutölutekjur ríkissjóðs hafa verið verðbættar í gegnum tíðina. Það má horfa á þetta í einföldustu mynd þannig að á árinu 2008 áður en kreppan skall á af fullum þunga var kostnaður í fjárlögum fyrir árið 2008 af vaxtabótakerfinu um 5,8 milljarðar á verðlagi þess árs, sem samsvarar u.þ.b. 9,3 milljörðum á verðlagi ársins 2017. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2018 er gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs vegna vaxtabóta verði 4 milljarðar.

Hér er ekki verið að rugla saman sérstökum vaxtabótum sem gripið var til á tímum kreppunnar heldur einfaldlega það hvernig kerfið virkaði sem stuðningur við fasteignakaupendur áður en hrunið skall á. Það sést líka ágætlega í einföldu dæmi sem ég setti upp um hjón sem bæði hafa meðaltekjur, í þriðju tekjutíund, sem samsvarar um 460 þús. kr. á mánuði fyrir hvort um sig, þannig að heildartekjur þeirra eru tvöfaldar sem því nemur. Þau eiga lágmarkseignarhlut í hóflegri fjögurra herbergja íbúð, segjum að hún sé 110 fermetrar. Meðalverð á slíkum fasteignum er í kringum 45 milljónir í dag. Þessi hjón samkvæmt reiknivél ríkisskattstjóra fá 44 þús. kr. í vaxtabætur á ári með vaxtakostnað upp á 2 milljónir. Þetta vaxtabótakerfi þjónar ekki einu sinni tekjulágum einstaklingum lengur. Þess má geta að einstætt foreldri sem má færa rök fyrir því að þurfi að búa í sambærilegu húsnæði og fyrrgreind hjón, kannski með tvö börn, fjögurra herbergja íbúð, fær ekkert. Það fær ekki krónu í vaxtabætur út úr þessu kerfi. Það er alveg augljóst að það er búið að slátra þessu vaxtabótakerfi með því að láta það hægt og rólega éta sig innan frá með því að færa ekki upp viðmiðunarfjárhæðir.

Eitt af því sem slær mig sérstaklega í þessu samhengi er að í þessu dæmi er gert ráð fyrir því að þessi hjón eða einstætt foreldri eigi 20% eignarhlut í þessari íbúð. Það eru eignarviðmiðin sem eru að slá út vaxtabæturnar. Þessi hjón fengju ekki fjármögnun fyrir meiru. Þannig að þau eru með lágmarkseignarhlut í hóflegri íbúð og það eru eignarviðmið vaxtabótakerfisins sem slá þau út. Þess vegna held ég að sé orðið brýnt að endurskoða þessi eignarviðmið. Þau eru í krónum talið umtalsvert lægri en þau voru árið 2008, samt hefur fasteignaverð u.þ.b. tvöfaldast á sama tíma. Þess vegna leggur 4. minni hluti til að eignarviðmið verði hækkuð í vaxtabótakerfinu um 5 millj. kr. í báðum tilvikum, hvort sem er fyrir einstakling, einstæða foreldra eða hjón, og þá væri í það minnsta verið að stíga fyrsta skref til að endurreisa þetta kerfi.

Nú getur vel verið að önnur stuðningskerfi gætu nýst okkur betur eins og t.d. að efla notkun séreignarsparnaðar til stuðnings við fyrstu kaup o.s.frv., en í það minnsta meðan verið er að vinna að slíkum endurskoðunum er mjög mikilvægt að þessi stuðningskerfi virki fyrir þá hópa sem þeim er ætlað að virka fyrir, sem eru tekjulægstu hóparnir í samfélaginu. Þau gera það ekki. Þess vegna held ég að sé mjög brýnt að grípa strax til ráðstafana hvað þetta varðar.

Þá um álagningu vörugjalds á bílaleigubíla, framlengingu ívilnunar. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um það. Mér finnst þetta skjóta skökku við, talandi um fyrirvaralitlar breytingar á skattkerfi. Hér var tekin ákvörðun á árinu 2015 um að afnema þessa ívilnun í áföngum. Fyrir því voru góð og gild rök, þ.e. að ívilnunin sem slík ynni gegn markmiðum um innflutning á umhverfisvænni bifreiðum auk þess sem vöxtur og viðgangur ferðaþjónustunnar sýndi að það væri kannski ekki eins rík ástæða og áður var til niðurgreiðslu af hálfu hins opinbera fyrir jafn stóra og stönduga atvinnugrein. Síðan þá hefur vöxtur ferðaþjónustunnar verið meiri en gert var ráð fyrir. Okkur hefur gengið betur en við þorðum að vona að markaðssetja Ísland sem heilsársáfangastað. Því fæ ég ekki séð að það standi nein rök til þess að hið opinbera sé að niðurgreiða atvinnugreinina með þessum hætti. Við höfum haft ágætisreglu um það að reyna að forðast að niðurgreiða undirstöðuatvinnuvegi okkar. Mér sýnist miðað við þær tölur sem fjármálaráðuneytið hefur sýnt um afkomu hjá bílaleigum að þær ættu fyllilega að standa undir þessari breytingu. Þess vegna leggur 4. minni hluti til að áform um að framlengja þessa ívilnun sem átti að falla úr gildi núna um áramótin verði einfaldlega tekin til baka.

Þá kemur að umhverfis- og auðlindasköttum sem hafa verið ræddir hérna aðeins út frá góðum eða slæmum hvötum í skattkerfinu. Fyrri ríkisstjórn áformaði að hækka kolefnisgjald um 93% og hlaut umtalsverða gagnrýni fyrir. Mig langar aðeins til að byrja með að setja þetta í heildrænt samhengi. Fyrir það fyrsta er alveg ljóst að ef við náum ekki markmiðum okkar í loftslagsmálum þá bíður okkar handan við hornið, eftir rúman áratug eða svo, ansi hár reikningur til þess að kaupa losunarheimildir sem við þurfum að afla okkur ef við náum ekki þessum markmiðum. Ég hef kallað eftir upplýsingum frá umhverfisráðuneytinu um það hvernig þessi skuldbinding standi í dag miðað við áætlanir um árangur. Nefndar hafa verið tölur upp að 150–200 milljörðum sem ríkissjóður gæti þurft að punga út fyrir heimildum.

Þess vegna tel ég að það sé mjög brýnt að við breytum skattkerfinu til þess að draga úr losun. Ef við horfum til áforma fyrri ríkisstjórnar um 93% hækkun kolefnisgjalds, sem er vissulega mjög mikil skattbreyting, ég get alveg tekið undir með þeim þingmönnum sem hafa rætt þetta hér að það er mikil breyting, þá kostar hún í rekstri bifreiðar sem ekið er 15.000 kílómetra á ári og eyðir um sjö lítrum á hundraðið, u.þ.b. 450 kr. á mánuði. Það eru útgjöldin sem felast í þessum kolefnisgjöldum.

Mig langar, með leyfi forseta, að lesa upp úr áliti 4. minni hluta brot sem verður að viðurkennast að er stolið úr minnihlutaáliti Vinstri grænna fyrir ári síðan og játa ég á mig þennan óforskammaða ritstuld hér með:

„Bent hefur verið á að kolefnisgjald sé áhrifamesta skattlagningin til að draga úr notkun óendurnýjanlegra orkugjafa, m.a. af framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem telur að kolefnisgjald sé mun skilvirkari aðferð til þess heldur en markaður með losunarheimildir eins og er innan ESB. OECD hefur bent á að kolefnisgjald og skattar á bensín, dísilolíu og olíu til upphitunar séu almennt lægri hér á landi en annars staðar á Norðurlöndum. OECD hefur enn fremur bent á að gjald sem ýmsar þjóðir hafa lagt á útblástur koltvísýrings sé um það bil 80% of lágt til þess að það nýtist sem skyldi til að verja loftslag jarðarinnar.“

Stuldi lýkur, getum við sagt hér.

Ég skil ekki hvers vegna Vinstri græn sem studdu fyrir ári síðan umtalsverða hækkun á kolefnisgjaldi styðja núna að áform fyrri ríkisstjórnar séu helminguð, sér í lagi þegar áhrifin á dæmigerðan akstur eru ekki meiri en raun ber vitni. Við verðum líka að horfast í augu við það að þessir hvatar hafa virkað ágætlega. Það eru beinlínis neikvæðir hvatar í þessu samhengi af hálfu Evrópusambandsins sem hafa virkað hvað best á bílaframleiðendur til að framleiða bifreiðar með vélum sem eyða minna. Skyndilega eftir að þau ákvæði tóku gildi áttu bifreiðaframleiðendur hannaðar vélar sem eyddu 50% minna en við höfðum áður þekkt. Við fögnum því að sjálfsögðu enda dregur það verulega úr kostnaði okkar. En það er ágætt að hafa það í huga þegar við tölum um neikvæða hvata sem þessa að þeim er einmitt ætlað að eyða gjaldstofninum sem þessir skattar eru lagðir á, að hvetja til umhverfisvænni samgangna, ýta undir orkuskipti. Fá þjóðfélög ef nokkur hafa meiri tækifæri en við til orkuskipta, að því marki sem við getum. Við vitum að það á ekki við um alla og tæknin er ekki enn þá komin t.d. varðandi lengri akstur, en akstur á þéttbýlissvæðum er fyllilega raunhæfur á rafmagni í dag. Við eigum að nýta þá hvata sem við getum til þess að styðja við þá breytingu.

Því leggur 4. minni hluti einfaldlega til að hætt verði við lækkun á áformum fyrri ríkisstjórnar og þau standi óbreytt, þ.e. að kolefnisgjöld verði hækkuð um 93%.

Það eru fjölmargir aðrir þættir sem vert er að taka til í þessu. Það er svo sem margt ágætt í áformum meiri hlutans eins og hvað varðar frítekjumark eldri borgara, að hækka frítekjumark á atvinnutekjur í 100 þús. kr. er jákvætt skref. Ég held að langtímastefnan eigi að vera sú að lífeyrisgreiðslur eldri borgara úr almannatryggingum séu ekki skertar vegna atvinnutekna, að við leyfum fólki einfaldlega að njóta ávinnings af því sem það getur drýgt tekjur sína með, sér í lagi á fyrstu árum lífeyristöku en raunin er sú að það er fyrst og fremst á aldursbilinu 67–75 ára sem fólk treystir sér eða kýs að vinna. En þá á fólk að njóta góðs af.

Það er hins vegar annað sem er slæmt hvað varðar málefni eldri borgara, það er að haldið er áfram að rýra verulega getu Framkvæmdasjóðs aldraðra til uppbyggingar á hjúkrunarrýmum. Það gengur í raun og veru þvert á stefnu þessarar ríkisstjórnar um að gera þar stórátak. Ég hygg að tveir þriðju hlutar þess fjármagns sem sjóðurinn hefur til ráðstöfunar á hverju ári renni í rekstur og/eða leigu. Það er ágætt að hafa það í huga hvað varðar hina svokölluðu leiguleið sem farin var í kreppunni að þar virðist ríkissjóður hafa valið að láta framkvæmdasjóðinn borga líka framlag ríkisins í uppbyggingu hjúkrunarheimilanna. Samanlagt framlag framkvæmdasjóðs og ríkis er 85% af byggingarkostnaði, mismunurinn greiddur af sveitarfélögum, en það virðist sem Framkvæmdasjóður aldraðra greiði 85% en ríkið hafi látið það vera að greiða sinn hlut. Það er mjög slæmt. Ég held að sé mjög brýnt að endurreisa sjóðinn þannig að hann geti sinnt hlutverki sínu sem er að byggja hjúkrunarheimili, ekki að reka hjúkrunarheimili.

Hér hefur verið rætt um sjálfvirkar hækkanir á krónutölugjöldum ríkissjóðs. Ég held að það væri ákaflega gott ef ríkissjóður hætti þessari verðbólguhugsun sinni, hætti að líta á það sem sjálfsagðan hlut að gjaldskrár af hvaða tagi sem er séu alltaf verðbættar. Þetta er verðbólgusýkt hugsun sem veldur því að við náum aldrei almennilega tökum á verðbólgunni ef við hugsum alltaf svona. Það eru afskaplega fá fyrirtæki sem geta leyft sér að hækka gjaldskrár sínar í takt við verðlagshækkanir á hverjum tíma. Við verðum auðvitað að horfa fram á við en ekki aftur. Við erum að leggja í verðbólgu komandi árs með þessum hugsunarhætti, ekki að bregðast við verðbólgu liðins árs. Það á að vera hluti af aðhaldskröfu ríkissjóðs að huga að því hvernig við getum bætt reksturinn til þess að mæta verðlagshækkunum sem þessum en draga auðvitað úr umfangi þeirra eins og við frekast getum.

Það eru líka ákveðin vonbrigði að sjá að það er ekki gripið til neinna ráðstafana nú vegna endurgreiðsla vegna rannsóknar- og þróunarstarfsemi í tæknifyrirtækjum. En ég treysti því miðað við yfirlýsingar ríkisstjórnar að úr því verði bætt á næsta ári.