148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:13]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Ólafur Ísleifsson) (Flf):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti 2. minni hluta fjárlaganefndar. Ég hef mál mitt á að segja að stóru skilaboðin í þessu fjárlagafrumvarpi, og um leið mestu vonbrigðin, að minnsta kosti fyrir mig og mína samherja, eru þessi: Að hinn mikli uppgangur sem einkennt hefur íslenskt efnahagslíf á undanförnum misserum og árum, hin mikla velgengni, mikla hagsæld, skuli ekki notuð til þess að nýta þá hagsæld og rétta hlut þeirra sem lökust hafa kjörin í íslensku samfélagi. Það eru hin stóru skilaboð. Það er alveg þekkt hvaða hópa hér um ræðir. Það eru ákveðnir hópar aldraðra, það eru öryrkjar, fátækir, tekjulágar barnafjölskyldur. Það er allt saman vel þekkt.

Því miður er ekki gengið fram af þeim metnaði sem maður hefði leyft sér að vonast eftir gagnvart þessum hópum.

Áður en ég kem nánar að því vil ég rekja það að fjárlaganefnd hefur unnið hörðum höndum við hin óvenjulegustu skilyrði, við mikla tímaþröng og fengið til sín marga gesti. Samstarfið hefur verið með ágætum og vil ég þakka það. En samt sem áður verður að segjast að þetta er náttúrlega mjög ófullnægjandi málsmeðferð þegar ræðir um stærsta og viðamesta mál hverrar ríkisstjórnar, fjárlögin, að það skuli vera svo mikil fljótaskrift á öllum hlutum sem raun ber vitni.

Hér hafa átt sér stað mikilvægar umbætur í umgerð fjárlaganna á undanförnum árum, meðal annars með lögum um opinber fjármál sem setja mikilvægan ramma, stórt framfaraskref. Fjármálaráð sem veitir faglegar umsagnir, ákaflega jákvætt. En því miður gerast hlutirnir ekki að öllu leyti í þeirri röð og lagt er upp með í hinni nýju umgjörð. Það skýrist af þeim aðstæðum sem sköpuðust hér. En niðurstaðan er þá sú að undirbúningur að samþykkt þessara fjárlaga er, leyfi ég mér að segja, allsendis ófullnægjandi.

Fyrst við tölum um umgjörðina vil ég geta þess að fjárlaganefnd bárust gagnlegar ábendingar frá Ríkisendurskoðun. Vakin er athygli á þeim í því nefndaráliti sem hér er mælt fyrir og tekið undir þær.

Þegar litið er á tekjuhlið frumvarpsins virðist enn þá ýmislegt óljóst. Það er ekki eins og stefna ríkisstjórnarinnar varðandi veiðigjöld í sjávarútvegi sé fyllilega ljós enn sem komið er og stendur upp á ríkisstjórnina að skýra stefnu sína í þeim efnum.

Vikið hefur verið að skattlagningu sem lýtur að ferðaþjónustunni. Þar hlýtur að vera verkefni stjórnvalda m.a. að undirbúa komugjöld og sömuleiðis að endurskoða almennt skattlagningu á greinina. Ég legg áherslu á samstarf við hagsmunaaðila í því sambandi og eins að allar breytingar sem ráðist verður í eigi sér stað með þeim hætti að fyrirtækjum í greininni gefist fullnægjandi aðlögunartími.

Næst vil ég víkja að máli sem lýtur að skerðingum ellilífeyris vegna atvinnutekna. Það reyndi á það mál í morgun þegar breytingartillaga Pírata, sem er sama efnis og frumvarpið sem við í Flokki fólksins höfum flutt hér, kom fram um að frítekjumark á atvinnutekjur verði einfaldlega fellt niður. Því miður var það fellt. Ég vek athygli á sterkri málefnalegri samstöðu meðal að minnsta kosti þriggja flokka í þinginu, Pírata, Miðflokks og Flokks fólksins. Ég vona að í umræðum um frumvarp flokks fólksins, sem liggur nú fyrir, muni fleiri koma með okkur á þann vagn.

Þegar fjallað er um tekjuhlið frumvarpsins hlýtur að verða að lýsa mjög miklum áhyggjum af því að ríkissjóður byggi sína afkomu að of miklu leyti, leyfi ég mér að segja, á því að skattleggja tekjur sem ekki duga fyrir nauðþurftum. Það er ekkert flókið að sjá það og það vita auðvitað allir. Á vefsíðu velferðarráðuneytisins eru sýnd framfærsluviðmið sem hönnuð eru af sérfræðingum. Þar kemur fram að einhleypingur þarf í kringum 224 þús. kr. að mati slíkra sérfræðinga, en þá án þess að húsnæði sé talið með.

Í nýlegri grein í Morgunblaðinu, eftir sérfræðing í velferðarrannsóknum og félagslegri stefnumótun, Hörpu Njáls, er lýst því áliti að framfærsluviðmið sé 366.350 kr. að lágmarki þegar húsnæði er meðtalið.

En tekjur eins og þessar sem þarf til nauðþurfta og lægri tekjur, sem ekki hrökkva þá til nauðþurfta, eru skattlagðar. Það er alvarlegt umhugsunarefni að ríkissjóður skuli þurfa að reisa afkomu sína á slíkum skatttekjum. Þegar upp eru teknar viðræður um að hækka persónuafslátt þannig að slíkar tekjur séu ekki skattlagðar í þessum mæli eru sopnar hveljur og jafnan kastað fram mjög háum tölum sem er þá kannski til marks um hversu háður ríkissjóður er þessari skattlagningu. Það gengur náttúrlega ekki og hlýtur að vera sameiginlegt verkefni þeirra sem sitja á Alþingi að taka á þessu máli og hverfa frá því að verið sé að skattleggja fátækt, því að það er auðvitað ekkert annað sem er að gerast þegar tekjur á þessu bili eru skattlagðar.

Reyndar er það svo að Flokkur fólksins hefur lagt fram hugmyndir um hvernig hægt væri að framkvæma eins konar tilfærslu innan tekjuskattskerfisins með því að hækka persónuafslátt, þó þannig að sú hækkun yrði stiglækkandi og persónuafsláttur félli niður við háar tekjur. Við höfum nefnt töluna 1,5 milljónir í því sambandi, en þannig að þeir sem lægstar hefðu tekjurnar nytu þessarar aðgerðar.

Varðandi frítekjumarkið er því haldið fram að hér sé um að ræða forgangsröðun af hálfu ríkisstjórnar sem verji 1,1 milljarði til þessa verkefnis. Áætlun um kostnað við að fella brott frítekjumarkið stenst í raun og veru ekki neina gagnrýna skoðun í ljósi þess að hún tekur ekki mið af þeim breytingum á atvinnuþátttöku og vinnuframboði sem myndi hljótast af þeirri breytingu. Sömuleiðis er það svo að þegar fyrirkomulag er með þeim hætti eins og nú er, með frítekjumark upp á 25 þúsund krónur, sem kannski dugar ekki einu sinni fyrir kostnaði við að komast til og frá vinnustað á mánuði, er náttúrlega vel hugsanlegt að fyrirkomulagið hafi ýtt undir svarta vinnu sem myndi þá jafnvel koma upp á yfirborðið ef losað yrði um þau heljartök sem mönnum eru búin í þessu efni.

Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni hefur aflað sér sérfræðiálits í þessu máli og fékk til þess dr. Hauk Arnþórsson stjórnsýslufræðing sem skilað hefur ítarlegri skýrslu. Hann gerir miklu betur en að gera einfaldan og hráan útreikning sem leiðir af sér kostnað upp á 1,1 milljarð, hann stígur skrefið til fulls og metur það hverjar yrðu viðbótartekjur ríkissjóðs vegna breytinganna. Niðurstaða hans er sú að kostnaður af því fyrir ríkissjóð yrði óverulegur og myndi þessi aðgerð jafnvel skila ávinningi í fjárhagslegu tilliti fyrir ríkissjóð. En ég heyri á máli ýmissa hv. þingmanna hér að sú niðurstaða eftir ítarlega greiningu sérfræðingsins virðist ekki hafa náð í gegn hjá nógu mörgum. Hér heyrist á máli ýmissa hv. þingmanna að þeir líta svo á að sá kostnaður sem ríkissjóður yrði að bera af þessu sé ríflega milljarður.

Eins og allir vita hafa öryrkjar verið látnir sitja eftir lengi. Ef aðstöðu þeirra er lýst með almennum orðum má segja að þeir búi við bótakerfi með háu flækjustigi, eins og tekið er til orða nú til dags. Fólk má sig hvergi hræra öðruvísi en að því sé refsað í fjárhagslegu tilliti. Samanlagt hefur þessu kerfi einhvern veginn tekist að búa til einhvers konar fátæktargildru utan um líf þessa fólks, að minnsta kosti allt of margra.

Það er til algerrar vansæmdar í okkar samfélagi. Það verður að taka miklu fastar á og stíga miklu fastar til jarðar í þágu þessa þjóðfélagshóps en gert hefur verið.

Við bendum í nefndaráliti okkar á ýmis atriði sem öryrkjar hafa barist fyrir og við gerum þau baráttumál að okkar. Það er fjölmargt sem öryrkjum er óhagfellt í fjárlagafrumvarpinu. Hækkun fjármagnstekjuskatts snertir illa það fólk sem hefur fjármagnstekjur t.d. af leigu húsnæðis, ef þannig stendur á. Sömuleiðis varðandi söluhagnað eigna. Við ítrekum af hálfu Flokks fólksins að barnabætur skipta miklu fyrir barnafjölskyldur, ekki síst hjá öryrkjum sem eiga börn og búa við lágar tekjur. Barnabætur eru of lágar, eins og ég geri ráð fyrir að menn geri sér almennt ljóst, sumir myndu segja skammarlega lágar og ég tek undir það.

Mig langar að gera að umræðuefni mál sem tekið hefur verið upp af hálfu Öryrkjabandalagsins. Það varðar greiðslur sem einstaklingur fær á grundvelli laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, til að koma til móts við sérstök útgjöld á grundvelli sérstakra aðstæðna. Slíkar greiðslur eru skattlagðar eins og um launatekjur væri að ræða. Það þýðir að uppbætur, styrkir eða aðrar greiðslur til að mæta kostnaði vegna sjúkdóma og fötlunar eða annarra sérstakra aðstæðna, að teknu tilliti til skattsins, nema þessar greiðslur ekki nema rúmlega 60% af þeirri fjárhæð sem metið hefur verið að þurfi til að mæta þeim útgjöldum sem við eiga hverju sinni.

Þær uppbætur sem hér um ræðir eru meðal annars umönnunarkostnaður sem heimilishjálp eða aðrir opinberir aðilar greiða ekki, sjúkra- eða lyfjakostnaður eða kostnaður vegna kaupa á heyrnartæki, húsaleigukostnaður sem fellur utan húsaleigubóta, vistunarkostnaður á dvalarheimilum, stofnunum, sambýlum og áfangastöðum sem fengið hafa starfsleyfi, rafmagnskostnaður vegna súrefnissíunotkunar. Öryrkjabandalagið hefur í fyrsta lagi glögglega sýnt að skattlagning þessara greiðslna sem tekna hefur í för með sér keðjuverkandi áhrif vegna þess að tekjuaukinn, sem svo er kallaður, lækkar lið eins og húsnæðisbætur, sérstakan húsnæðisstuðning og barnabætur. Sömuleiðis hefur Öryrkjabandalagið dregið fram að tekjuskattur af þessum uppbótum á lífeyri árið 2016, þeim greiðslum greiddar sem hafa verið í þessu skyni, nemi samtals 46 millj. kr. Það er náttúrlega alveg með ólíkindum að litið sé svo á að ríkissjóður geti ekki án þessara skatttekna verið.

Hér er einfalt mál að bæta úr.

Það er ástæða til þess að vekja athygli á að vaxtabætur geta ráðið úrslitum fyrir tekjulágt fólk, sérstaklega ef það býr í landi eins og okkar fagra landi þar sem vaxtastig er jafn hátt og menn þekkja. Það er ástæða til að taka undir álit Öryrkjabandalagsins að eignastofn fyrir vaxtabætur þurfi að hækka árlega í samræmi við þróun fasteignamats.

Þá er rétt að leggja áherslu á að virðisaukaskatt á lyfseðilsskyldum lyfjum og hjálpartækjum fyrir fatlað fólk og aldraða ber að afnema. Eins og menn þekkja er það stefna Öryrkjabandalagsins, og hún kom mjög glöggt fram í máli talsmanna þeirra á fundi fjárlaganefndar, að af þeirra hálfu er fólk hvatt til að bæta efnalega afkomu sína með aukinni atvinnuþátttöku eftir því sem aðstæður leyfa. Standa ber þannig að málum að ekki séu lagðar hindranir í veg þess fólks sem vill og getur aflað sér tekna, til dæmis með hlutastörfum, jafnvel þótt það sé á örorkubótum. Ber skilyrðislaust að mæta þessum einstaklingum eigi síðar en strax með því að hækka frítekjumark vegna atvinnutekna í samræmi við hækkun á launavísitölu frá 2009.

Í fjárlagafrumvarpinu eru áform um að hækka endurgreiðsluhlutfall á tannlækningum fyrir lífeyrisþega og aldraða. Því ber auðvitað að fagna. Hins vegar vekur furðu að framkvæmd þessara áforma þurfi að bíða fram á árið. Viðmiðunargjaldskrá sjúkratrygginga sem stuðst hefur verið við hefur ekki breyst frá árinu 2002, fyrir utan eilitla hækkun um 5,9% árið 2014. Verðlag hefur hins vegar tvöfaldast á þessum tíma, að minnsta kosti. ASÍ segir í umsögn sinni, sem lögð var fram á fundi fjárlaganefndar, að könnun verðlagseftirlits samtakanna hafi leitt í ljós að gjaldskrá tannlækna sé nú að meðaltali 150–200% hærri en viðmiðunargjaldskrá sjúkratrygginga. Það sjá auðvitað allir að tannheilsu lífeyrisþega og aldraðra er háski búinn með þeirri stefnu sem fylgt hefur verið með því að láta þessa viðmiðunargjaldskrá sjúkratrygginga standa óbreytta eða því sem næst. Það hefði gjarnan mátt stíga fastar og ákveðnar til jarðar en ríkisstjórnin boðar. Aðgerðir hefðu þurft að koma fyrr og fjárhæðin sýnist ekki hrökkva eins langt og efni standa til.

Ég ætla að leyfa mér að gera að umræðuefni þá hækkun kolefnisskatts um 50%, sem er hluti af áformum ríkisstjórnarinnar í kringum fjárlögin fyrir 2018. Gert er ráð fyrir að kolefnisskattur hækki um 50%. Fram kemur í greinargerð með hinum svonefnda bandormi að þessi hækkun leiði til 0,03% hækkunar á vísitölu neysluverðs. Er það ekki bara mjög lítið og geta ekki allir verið mjög ánægðir? Það sýnist óverulegt við fyrstu sýn.

En lítum aðeins nánar á málið. Lán heimila vegna húsnæðiskaupa eru eitthvað í kringum 2.000 milljarðar. Þorri þeirra lána er verðtryggður. Ef við reiknum þessa 0,03% hækkun á það sjáum við að hækkun á kolefnisgjaldi, sem er vegna markmiða sem vafalaust eru alls góðs makleg og verðug í loftslagsmálum og alþjóðlegum skuldbindingum í því efni, leiða af sér að heimilin skulda allt í einu 500–600 milljónum króna meira vegna þess. Hvað hafa þau gert til að verðskulda það að skuldir þeirra séu auknar vegna þess að ríkisstjórnin ætlar að ná fram markmiðum í loftslagsmálum? Hvað hafa fjármálastofnanir unnið til að eignast 500–600 milljón króna kröfur á heimilin af því að ríkisstjórnin ætlar að fylgja fram markmiðum í loftslagsmálum? Þetta er bara lítið dæmi, örlítið dæmi. Svona hefur viðgengist.

Þetta er ekkert nýtt. Hækkanir á óbeinum sköttum hafa verið látnar hafa slík áhrif. En þetta litla dæmi er svo kristalstært og skýrt að það á ekki að fara fram hjá nokkrum manni hvílík brenglun það er sem við búum við í þessu fjármálakerfi hér. Auðvitað er það fullkomin brenglun, það er ekki hægt að nota neitt annað orð, að ríkisstjórnin ætli að framfylgja markmiðum á grundvelli Parísarsamkomulags í loftslagsmálum og þá skuldi heimilin allt í einu 500–600 milljónum króna meira en þau gerðu í gær. Og fjármálastofnanir hafa eignast nýjar kröfur á heimilin upp á 500–600 milljón króna. Þau hafa allt afl réttarkerfisins að baki sér þegar kemur að því að innheimta þessar kröfur. Og heimilin? Þau eru varnarlaus með öllu.

Hvar eru mótvægisaðgerðir af hálfu ríkisstjórnarinnar í þágu heimilanna vegna stefnu hennar í loftslagsmálum og áhrifa á hag heimilanna í gegnum þá hækkun?

Í áliti minni hlutans er ítarlega fjallað um málefni löggæslunnar. Við í Flokki fólksins leggjum mikla áherslu á að lögreglan hafi fullnægjandi mannafla og búnað til að rækja sitt þýðingarmikla hlutverk við að gæta öryggis borgaranna og ríkisins, eins og það er orðað. Það er mjög nauðsynlegt að menn átti sig á því að lögreglan hefur verið vanmönnuð árum saman. Það er ekki beinlínis hægt að sjá að það verði fullnægjandi umbætur í þessu efni með þeim fyrirheitum sem gefin hafa verið af hálfu nýrrar ríkisstjórnar, sérstaklega hvað varðar mönnun lögreglunnar. Það þarf að gera mun betur. Við í Flokki fólksins munum koma nánar að því máli í umræðum hér.

Ég ætla því að víkja nokkrum orðum að heilbrigðismálum. Í stjórnarsáttmálanum er boðuð ný heilbrigðisstefna þess efnis að íslenska heilbrigðiskerfið eigi að standast samanburð við það sem best gerist í heiminum þar sem allir landsmenn eiga að njóta góðrar þjónustu án tillits til efnahags eða búsetu. Það hljómar svo sannarlega afar vel.

En þá er á það að líta að aðspurðir könnuðust ráðamenn Landspítalans á fundi fjárlaganefndar ekki við að þeir sæju fyrir sína parta merki um að frumvarpið fæli í sér, eins og það var orðað, stórsókn í heilbrigðismálum. Sjúkrahúsið á Akureyri lýsti því að það teldi sig vanta um 200 milljón krónum meira en fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir. Stjórnendur sjúkrahússins lýstu áhyggjum af því að hjúkrunarfræðingarnir, sem eru eins og menn þekkja, dæmigerð kvennastétt, væru að dragast aftur úr í kjörum, sem ekki er við búandi.

Stjórnendur heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni sögðu rekna sveltistefnu eins og birtist í frumvarpinu gagnvart stofnunum þeirra. Af þeirra hálfu lýstu þeir komu sinni á fund fjárlaganefndar Alþingis sem neyðarkalli vegna sinna mála og að heimsóknin fæli í sér neyðaróp frá heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. Sömuleiðis er rétt að geta þess að Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann lýstu mjög bágri stöðu vegna sjúkrahússins á Vogi.

Fleira mætti telja í þessu sambandi, herra forseti. En þetta lauslega yfirlit sýnir að það skorti nokkuð upp á að í fjárlagafrumvarpinu felist umtalsverðar efndir á þeim fyrirheitum sem gefin hafa verið um uppbyggingu innviða í íslensku heilbrigðiskerfi. En ég hlýt, til að gæta allrar sanngirni, að geta þess að af hálfu meiri hlutans í fjárlaganefnd hafa verið kynntar útgjaldatillögur sem lúta sérstaklega að heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og Landspítala. Það ber auðvitað að meta og virða. En þá segi ég: Metnaður stjórnvalda í heilbrigðismálum eins og hann birtist í reynd verður að vera meiri en sá að seðja sárasta hungrið.

Fram kemur í fjárlagafrumvarpi að halda á fast við staðarval nýs þjóðarsjúkrahúss við Hringbraut þrátt fyrir að færir sérfræðingar, ef ekki þeir færustu, hafi bent á, meðal annars í aðdraganda nýliðinna alþingiskosninga, að forsendur þær sem staðarvalið er reist á, meðal annars varðandi byggingarmagn á þessu svæði, vegna aðkomuleiða að svæðinu, standist ósköp einfaldlega ekki. Þar er byggt á skýrslum sem komnar eru til ára sinna og eru orðnar að minnsta kosti 20 ára gamlar. Þar er meðal annars gert ráð fyrir, held ég að ég megi fullyrða, tvennum göngum, þar á meðal einum undir Öskjuhlíð. Miklabrautin á að vera í stokki eða með einhverju sérstöku fyrirkomulagi. Engin af þessum forsendum er fyrir hendi. Byggingarmagnið ógnar þessu svæði. Eldri forsendur hafa meðal annars gert ráð fyrir óskyldum hlutum eins og þeim að efla miðbæinn. Lögð er áhersla á nálægð við aðalbyggingu Háskóla Íslands, eins og menn eigi að geta áttað sig á hvaða raunhæfu þýðingu það hafi.

Staðan í þessu máli virðist vera þessi: Annars vegar er því haldið fram að spítalinn sé fullfjármagnaður en staðan er þá sú að undirbúningurinn sem staðið hefur árum saman virðist þykja of langur og kostnaðarsamur til þess að endurmeta megi staðsetninguna. Það er náttúrlega ekki heppilegt. Hvaða orð mætti hafa um svona ráðslag? (Gripið fram í: Ekki í lagi.) Má kalla þetta fullfjármögnuð mistök, virðulegi forseti? Fullfjármögnuð mistök, þegar þjóðinni ríður á að fá vel heppnað sjúkrahús á besta stað með greiðum aðkomuleiðum.

Mig langar til að vekja athygli á því sem segir í nefndaráliti varðandi framkvæmd fjárlaga. Þar er mikil umgjörð og miklar skyldur og ábyrgð lagðar á ráðherra í hverjum og einum málaflokki. Þeir eiga að grípa til aðgerða. Þarna er tekið dæmi um það sem sýnir að (Forseti hringir.) ekki hafi verið gripið með fullnægjandi hætti til aðgerða.

Ég lýk þá máli mínu í ljósi þess að minn tími er útrunninn.